Saknar þess að vera á stórmóti

Sverre Jakobsson.
Sverre Jakobsson.

Íslenska karlalandsliðið í handbolta stendur í stórræðum þessa dagana þar sem liðið er nú statt í Króatíu í lokakeppni EM. Ísland vann góðan sigur á Svíþjóð í fyrsta leik en steinlá svo fyrir Króatíu. Í dag leikur liðið lokaleik sinn í riðlinum og eru Serbar andstæðingar dagsins.

Á heimasíðu Akureyrar Handboltafélags er rætt við Sverre Jakobsson, þjálfara Akureyrar Handboltafélags og fyrrum landsliðsmann, en Sverre lék lengi með landsliðinu og vann m.a. silfur á Ólympíuleikunum í Peking og brons á EM í Austurríki með liðinu. 

Í viðtalinu við Sverre á heimasíðu Akureyrarliðsins er m.a. farið yfir möguleika Íslands á EM í Króatíu.

,,Mér finnst ekkert óraunhæft að horfa á 5-8 sæti. Liðið er á réttri leið, ef við tökum með okkur stig í milliriðil þá sé ég þetta geta gerst," segir Sverre sem kveðst sakna þess að verja janúarmánuði á stórmóti í handbolta.

Sverre fagnar á Ólympíuleikunum í Peking. Mynd: MBL - Golli / Kjart­an Þor­björns­son

,,Já klárlega, þetta var alltaf skemmtilegur tími. Ég var svo heppinn að fá að taka þátt í 10 stórmótum sem eru forréttindi og ég er þakklátur fyrir. Ég væri til í að taka eitt enn," segir Sverre, léttur í bragði.

Sverre stóð vaktina á tíu stórmótum og lék alls 182 A-landsleiki fyrir Íslands hönd. Hann á erfitt með að nefna eitt eftirminnilegt atvik frá landsliðsferlinum, þau eru einfaldlega of mörg. Ekki nema von enda var Sverre hluti af hálfgerðu gullaldarskeiði landsliðsins.

,,Þau eru nokkur, það að vinna silfur á ÓL mun alltaf vera efst á blaði. Hins vegar mætti líka nefna þegar ég spilaði minn fyrsta leik, þegar við unnum Frakkana á HM 2007 var einstakt. Brons á EM 2010 og svo eitt sem gleymist ekki; það var tap á móti Ungverjum á ÓL12, þá hélt ég að við værum að fara alla leið. Liðið var í frábæru formi, vel spilandi og við höfðum getuna en..." segir Sverre.


Athugasemdir

Nýjast