KA fagnar 90 ára afmæli

Frá afmæliskaffi KA í gær þar sem landsliðsmenn KA sem spiluðu landsleik á árinu 2017, eða glímdu fy…
Frá afmæliskaffi KA í gær þar sem landsliðsmenn KA sem spiluðu landsleik á árinu 2017, eða glímdu fyrir Íslands hönd í júdó, voru heiðraðir með rós. Þeir voru 29 talsins, en nokkra vantaði á myndina. Mynd/Þórir Tryggvason.

Knattspyrnufélag Akureyrar fagnar í dag 90 ára afmæli sínu. Húsfyllir var á afmæliskaffi KA sem fram fór í gær í KA-heimilinu, segir í tilkynningu frá félaginu. Afmælishátíðinni verður framhaldið næstkomandi laugardag, 13. janúar, með stórveislu í KA-heimilinu þar sem fram koma Eyþór Ingi Gunnlaugsson, Hamrabandið, Vandræðaskáld og Páll Óskar. Veislustjóri er Sigurður Þorri Gunnarsson, útvarpsmaður.

Dagskráin í gær var með hefðbundnu sniði en Hrefna G. Torfadóttir, formaður, fór yfir árið 2017 og minntist m.a. látinna félaga og helstu afreka KA innan sem utan vallar. Ingvar Gíslason, varaformaður, las upp annála deilda og voru landsliðsmenn KA heiðraðir með rós. Ræðumaður dagsins var Katrín Káradóttir, athafnakona.

Í lok dagskrárinnar var Böggubikarinn afhentur. Böggubikarinn var gefinn af Gunnari Níelssyni og fjölskyldu til minningar um Böggu sem lést langt fyrir aldur fram og skal veittur hvetjandi, jákvæðum einstaklingum sem hafa góð áhrif á aðra. Alexander Heiðarsson, júdó, var hlutskarpastur meðal drengjanna en þær Berenika Bernat og Karen María Sigurgeirsdóttir voru jafnar í tveimur kosningum hjá stúlkunum og deila þær því bikarnum.

Miðasala á afmælishátíðina 13. janúar er í KA-heimilinu. Einnig er hægt að panta miða á siguroli@ka.is og gunninella@outlook.com.

 


Athugasemdir

Nýjast