4. sept - 11. sept - Tbl 36
Halldór Stefán tekur við þjálfun mfl karla KA í handbolta
Handknattleiksdeild KA og Halldór Stefán Haraldsson hafa gert með sér þriggja ára samning og mun Halldór því taka við stjórn á meistaraflokksliði KA eftir núverandi tímabil. Áður hafði Jónatan Magnússon núverandi þjálfari liðsins gefið út að hann myndi hætta með liðið í vor.
Halldór Stefán sem er aðeins 32 ára fór snemma út í þjálfun og kominn með mikla reynslu þrátt fyrir ungan aldur. Hann stýrði meðal annars kvennaliði Fylkis árin 2011-2016 og á sama tíma stýrði hann yngri landsliði kvenna fædd 1998 og 1999 á árunum 2012-2015. Hann var í kjölfarið ráðinn aðalþjálfari liðs Volda í Noregi þar sem hann hefur þjálfað frá 2016 en hann lætur nú staðar numið þar og kemur norður í sumar.
Volda hefur náð frábærum árangri undir stjórn Halldórs en hann hefur komið liðinu úr C-deild upp í norsku úrvalsdeildina. Eins og áður segir er Halldór Stefán ungur, efnilegur og spennandi þjálfari sem KA byggir miklar vonir við að haldi áfram því flotta starfi sem hefur verið unnið hjá félaginu. Halldór er einnig ráðinn sem afreksþjálfari hjá KA og er honum ætlað að koma enn meiri metnaði í afreksþjálfun fyrir yngri iðkendur hjá handknattleiksdeild KA. Einnig mun hann vera til aðstoðar og ráðlegginga við þjálfun á ungmennaliði sem og liði 3. flokks karla.
Halldór Stefán er með Master Coach gráðu sem og Master Coach Pro réttindi frá EHF síðan 2020. Árið 2015 kláraði hann IHF Top Handball og EHF Youth þjálfararéttindi síðan 2012. Þá er hann með B.Sc í Sport Science frá Háskólanum í Reykjavík sem hann kláraði árið 2013.
KA fagnar því að Halldór Stefán ætli að taka þátt í okkar flotta starfi og bjóðum við hann og fjölskyldu hans velkomin norður næsta sumar.
Frá þessu segir á heimasíðu KA
Athugasemdir