Frábær árangur hjá UFA
Góður árangur náðist hjá ungum iðkendum Ungmennafélags Akureyrar (UFA) sl. helgi þegar Íslandsmót 11-14 ára í frjálsum íþróttum fór fram á Sauðárkróki. Félagið eignaðist átta Íslandsmeistara og hafnaði í þriðja sæti yfir stigahæstu félögin. Þá urðu 11 ára drengir félagsins stigahæstir á mótinu.
„Það er frábær árangur og eftirtektarvert að stór hluti þeirra eru að stíga sín fyrstu skref í þjálfun og keppni. Fjölmargir keppendur bættu einnig sinn persónulega árangur á árinu. Þennan góða árangur má meðal annars þakka frábærum þjálfurum félagsins, og að öðrum ólöstuðum á Unnar Vilhjálmsson, þjálfari þar mikinn hlut að máli,“ segir í tilkynningu frá UFA.
Athugasemdir