30. október - 6. nóember - Tbl 44
Zontaklúbburinn Þórunn hyrna heldur afmælishóf og listaverkauppboð - Helena Eyjólfsdóttir heiðruð fyrir 40 ára starf fyrir klúbbinn
„Starf Zontaklúbbsins Þórunnar hyrnu er í nokkuð föstum skorðum. Við hittumst einu sinni í mánuði frá september og fram í maí á fundum þar sem tekin eru fyrir málefni sem tengjast Zontastarfinu, við njótum þess að vera saman og gleðjast, það er alltaf mikil gleði sem fylgir okkar samveru,“ segir Sesselja Sigurðardóttir talsmaður Zontaklúbbsins Þórunnar hyrnu og fyrrverandi svæðisstjóri Zonta á Íslandi. Klúbburinn heldur upp á 40 ára afmæli sitt í Deiglunni næstkomandi laugardag, 5. október kl. 15. Þar verður afmælisboð og efnt til listaverkauppboðs. Bæjarbúum er boðið að koma og fagna með Zontakonum.
Sesselja rifjar upp aðdraganda þess að Zontaklúbburinn Þórunn hyrna var stofnaður fyrir fjórum áratugum en á þeim tíma var starfandi á Akureyri Zontaklúbbur Akureyrar. „Það hafði fjölgað mjög í þeim klúbbi og var svo komið í maí árið 1983 að félagskonur voru 38 talsins. Það viðhorf var ríkjandi að klúbbastarf í fjölmennum klúbbum væri ekki eins lifandi og skemmtilegt og þar sem félagskonur væru hæfilega margar. Því var ákveðinn vilji innan klúbbsins til að yrði ekki fjölmennari en 40 konur,“ segir hún.
Starfandi nýklúbbanefnd hjá ZA kannaði í kjölfarið hvort grundvöllur væri fyrir því að stofna nýja klúbb á Akureyri. Sesselja segir að aðrar kröfur hefðu verið gerðar á þeim tíma svo uppfylla mætti kröfu Zonta International, en þær voru m.a. um starfssvið kvenna, ábyrgð og forystu. Ákveðið var að kanna með áhuga meðal akureyrskra kvenna á stofnun nýs Zontaklúbbs og finna 20 áhugasamar konur sem uppfylltu skilyrði. Kynningarfundur var haldinn og alls 18 konur óskuð eftir að taka þátt í Zontastarfi á Akureyri.
Helena heiðruð
„Það var ákveðið að nýi klúbburinn fengið nafnið Þórunn hyrna eftir fyrstu landnámskonu Eyjafjarðar,“ segir Sesselja en stofnfundur klúbbsins var 26. mars 1984 í mánasal Sjallans. Guðlaug Hermannsdóttir var fyrsti formaður klúbbsins, Svava Aradóttir varaformaður, Bára Stefánsdóttir gjaldkerfi, Helena Eyjólfsdóttir ritari, Valgerður Sverrisdóttir meðstjórnandi, Kristín Pálsdóttir stallari og varastallari var Steinunn S. Sigurðardóttir.
Helena er enn virk í starfi Þórunnar hyrnu og verður hún heiðruð fyrir störf sín í þágu klúbbsins í afmælishófinu á laugardag. Helena mun svo heiðra viðstadda með söng við undirleik Friðjóns Jóhannssonar.
Listaverk boðin upp
Að auki verður efnt til listaverkauppboðs með yfirskriftinni List með list og verður öll innkoma uppboðsins nýtt til að styðja við listnám og listsköpun kvenna á Akureyri. Hugmyndin að því að halda listaverkauppboð varð til þegar klúbburinn fékk listaverkagjöf. Vilhjálmur Bragason „vandræðaskáld“ stjórnar dagskránni og uppboðinu. „Við vonum að sem flestir mæti og gleðjist með okkur og bjóði auðvitað í þau listaverk sem verða til sölu,“ segir Sesselja. Óskað verður eftir umsóknum um styrki í október og fer úthlutun fram í tengslum við 16 daga átak Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi sem stendur frá 25. nóvember til 10. desember næstkomandi.
Glatt á hjalla við laufabrauðsgerðina
Zontaklúbburinn Þórunn hyrna starfar með Zontaklúbbi Akureyrar og Soroptomistum en þessi félög standa sem dæmi fyrir kyndlagöngu í tengslum við átak gegn kynbundnu ofbeldi. Þá eru sameiginlegir fræðslufundi haldnir, m.a. 8 mars sem er baráttudagur kvenna. „Við myndum gjarnan vilja fá fleiri kvennaklúbba til liðs við okkur – jafnvel karlaklúbba því nú er ekki lengur gerð krafa til kyns í Zonta, né heldur er krafa um að Zontakonur séu „gildandi“ í samfélaginu, þær þurfa ekki að koma úr ákveðnum starfsgreinum heldur eða bera ákveðna titla. Það eru allir velkomnir til okkar sem vilja vinna að málefnum Zonta.“
Helsta fjáröflun Zontaklúbbsins Þórunnar hyrnu er sala á laufabrauði og segir Sesselja ávallt glatt á hjalla þegar konur komi saman til að skera út og steikja laufabrauð.
Bæta stöðu og lífsgæði kvenna
Hver Zontaklúbbur í heiminum leggur ákveðinn skerf í alþjóðleg verkefni sem er af margvíslegum toga, jafnframt því að leggja innanlandsverkefnum lið. Undanfarin ár hefur klúbburinn stutt við bakið á Aflinu, Bjarmahlíð, Kvennaathvarfinu, Rauða krossinum og Velferðarsjóði Eyjafjarðar. Enn fremur hefur klúbburinn styrkt einstæðar mæður til sumardvalar með börnum sínum og styrkt skólastúlkur til tölvukaupa. „Zontahreyfingin vinnur að því að bæta stöðu og lífsgæði kvenna hvar sem er í heiminum og lögð er sérstök áhersla á valdeflingu ungra stúlkna og kvenna með því að styðja þær til náms og veita þeim þannig brautargengi til aukinna tækifæra og áhrifa í samfélaginu,“ segir Sesselja.
Helena Eyjólfsdóttir Zontakona í 40 ár Þroskandi og gefandi að vera með
„Það hefur bæði styrkt mig og eflt að taka þátt í starfsemi Zontaklúbbsins,“ segir Helena M Eyjólfsdóttir sem tvívegis hefur á 40 ára ferli sínum innan Zontaklúbbsins Þórunnar hyrnu verið formaður klúbbsins.
Helena sóttist á sínum tíma eftir því að komast í Zonta einkum til að kynnast fleiri konum, félagar hennar í tónlistarbransanum voru aðallega karlmenn. „Það hefur margt breyst á þessum 40 árum. Mér finnst það skref í rétta átt að nú geta allar konur sótt um að gerast félagar, en svo var ekki áður.
„Það hefur verið þroskandi og gefandi að vinna með klúbbnum og taka ábyrgð á nefndarstörfum. Fundirnir okkar eru líka gefandi og lærdómsríkir. Það er alltaf mikil gleði ríkjandi á fundum og gaman að hitta konurnar og eiga saman skemmtilega stund, ég kem alltaf glaðari heim eftir fundi. Það skiptir mig líka miklu máli að hafa kynnst mörgum dásamlegum konum í gengum starfið,“ segir Helena.
Zontakonur frá Íslandi, Danmörku, Noregi og Litáhaen hittust á sameiginlegum fundi í Hofi á Akureyri síðastliðið haust. Þær „umkringdu“ bygginguna og sendu bylgju friðar út í heim