Vörur fyrir eina milljón keyptar með stolnum kreditkortum

Guðmundur Ómarsson eigandi og framkvæmdastjóri Eldhafs ehf. segist hafa orðið fyrir stórfelldu kortasviki í netverslun sinni á dögunum, þar sem vörur fyrir um eina milljón króna voru keyptar með stolnum kreditkortum. Eldhaf er endursöluaðili Apple á Norðurlandi, með verslun á Glerártorgi og heldur úti netversluninni eldhaf.is.  

Í pósti sem Guðmundur sendi til Vikudags segir: "Málið er að við fengum pöntun í gegnum netverslun okkar 24. febrúar síðastliðinn. Einn iPad að verðmæti 114.990.- Sú pöntun er sett í körfu og þegar kaupandi borgar fyrir vöruna þá fer hann sjálfkrafa yfir á örugga greiðslusíðu Valitors. Nokkrum mínútum seinna kemur tölvupóstur frá Valitor um að greiðsla hafi gengið í gegn. Engin önnur gögn berast frá Valitor. Starfsmaður Eldhafs skrifar út reikning á viðskiptavin og tekur til vöruna og kemur henni í póst eins og vanalega.

4. mars berast tvær pantanir í gegnum vefverslunina. Ein upp á 289.980.- sem eru 2 x iPad og önnur upp á 539.980.-  sem eru 2 x MacBook Air fartölvur. Okkur fannst ástæða til að láta athuga þessar færslur þar sem þær eru báðar gerðar erlendis frá. Kom þá í ljós að bæði þau kortanúmer voru stolin. Við nánari athugun kom einnig í ljós að fyrsta pöntunin var einnig greidd með stolnu korti. Við höfðum samband við Valitor og segjast þeir ekki ætla að bæta skaðann.

Við spyrjum þá, af hverju heitir þessi þjónusta þeirra örugg greiðslusíða ef hún er hvorki örugg fyrir söluaðilan né korthafann, við erum að borga fleiri hundruð þúsund í þjónustugjöld og þóknanir á ári, og finnst að Valitor ætti frekar að ábyrgjast svona mál heldur en fyrirtæki sem kaupa af þeim þjónustu eins og örugga greiðslusíðu fyrir netverslanir.

Við teljum að fyrirtækjaeigendur séu ekki upplýstir um áhættuna sem tengist viðskiptum sem þessum og flestir sem kaupa þessa þjónustu af þeim gera ráð fyrir að það sé á þeirra ábyrgð að tryggja að ekki sé um svik að ræða, þar sem þeir hafa fullan aðgang með upplýsingum korthafans en við sem viðskiptavinir Valitors fáum engar upplýsingar nema að færslan hafi gengið í gegn," segir Guðmundur.

Nýjast