Vonbrigði að ekki skyldi nást samstaða um fjárhagsáætlun

Fjárhagsáætlun Akureyrar fyrir árið 2011 var samþykkt við síðari umræðu í bæjarstjórn á þriðjudag. Ekki fór þó svo að allir bæjarfulltrúar stæðu saman að því að samþykkja áætlunina, því fulltrúar Samfylkingar, Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstri grænna sátu hjá við afgreiðsluna en bæjarfulltrúi Bæjarlistans greiddi atkvæði með eða á móti einstaka liðum hennar.  

Bæjarfulltrúar L-listans, sem eru með hreinan meirihluta í bæjarstjórn, samþykktu fjárhagsáætlunina í öllum liðum. Halla Björk Reynisdóttir bæjarfulltrúi L-listans sagði það vonbrigði að ekki skyldi hafa náðst samstaða milli meiri- og minnihluta við afgreiðsluna. Undir það tóku fulltrúar minnihlutans. Fram kom við umræður í bæjarstjórn í gær að fulltrúar minnihlutans voru helst ósáttir við að hversu miklir fjármunir fara til framkvæmda á næsta ári. Þeir lögðu fram sameiginlega tillögu um að lækka útgjöld til framkvæmda um 250 milljónir króna en sú tillaga var felld af fulltrúum meirihlutans. Fulltrúar minnihlutans voru að mestu leiti sammála um nauðsyn þess að ráðast í fyrirhugaðar framkvæmdir á næsta ári en þeir vildu fara hægar í sakirnar og lækka útgjöld til þeirra, m.a. til framkvæmda við nýtt hjúkrunarheimili og viðbyggingu við Naustaskóla.

Fram kom í máli Höllu Bjarkar að litlar sem engar breytingar hafi verið gerðar á áætluninni á milli umræðna. Gjalskrár hafi verið samþykktar en að reynt hafi verið eftir fremsta megni að fara varlega í hækkanir. Áætlað er að aðalsjóður standi í tæpum 310 milljónum í plús fyrir fjármagnsliði og í rúmum 380 milljónum í minus eftir fjármagnsliði. Þá er gert ráð fyrir að A- og B hlutar samstæðunnar endi með jákvæðri niðurstöðu upp tæpar 144 milljónir króna. 

"Meðal þeirra pólitísku ákvarðana sem L-listinn hefur talið mikilvægt að taka nú á þessum tímum er hlutverk bæjarsjóðs í atvinnulífinu í niðursveiflu eins og þeirri sem nú gengur yfir Ísland. Það fer ekkert á milli mála að umsvif Akureyrar jukust mikið í þeirri uppsveiflu sem var á árunum fyrir hrun. Þó að bæjarsjóður hafi ekki staðið illa miðað við aðra á landinu við hrun, þá er það líka ljóst að hann stóð ekki nógu vel til að virka sem púði fyrir Akureyrarbæ þegar hrunið gekk yfir. Mikilvægast fyrir áætlunargerð Akureyrabæjar í þessu árferði er að átta sig á hvort sú niðursveifla í tekjum sem við nú horfum á, sé tímabundin eða hvort eitthvað meira liggi þar að baki. Svarið við þeirri spurningu er mikilvægt,  þegar kemur að því að ákveða hvaða áhersla er lögð á að ná rekstri Akureyrarbæjar yfir núllið," sagði Halla Björk.

Hún sagði að fjárhagsáætlunin væri vinnuplagg næsta árs og aðeins upphafið í þeirri krefjandi vinnu sem framundan er. "Nú strax eftir áramót verður farið í að vinna þriggja ára áætlun og eins og við í L-listanum höfum boðað að reyna jafnvel að líta enn lengra til framtíðar."

Nýjast