Vituð þér enn - eða hvað? Samtal um rætur

 

"Vituð þér enn - eða hvað?" er fjölþjóðleg ráðstefna, lista- og menningarviðburður þar sem fjallað er um menningararf kvenna, djúpar og grunnar rætur okkar, og mikilvægi þeirra fyrir sjálfbæra framtíð.

Fólkvangurinn er liður í starfi Mardallar – félags um menningararf kvenna, en Mardöll hóf viðburðaröð sína Vitið þér enn eða hvað? fyrir tveimur árum, með viðburðum á Eyjafjarðarsvæðinu. Með Fólkvanginum tengjum við starfið út um heim, annars vegar, og hins vegar viljum við vekja aukna athygli hérlendis á straumum „eco-femínismans“  („græna“ femínismans) og nýtingu fornrar visku sem leiða til sjálfbærrar framtíðar.

Fólkvangurinn er fjölþjóðlegur viðburður, með 7 fyrirlesurum og listakonum frá Norðurlöndunum og Bretlandi, auk fjölda fræða- og listafólks af Norðurlandi og víðar að á Íslandi. Auk þriggja daga aðaldagskrár  - þar sem fléttað er saman erindum, listviðburðum, ritúölum og almennri umræðu á hringborðum-, eru barnasmiðjur, 7 listsýningar (sem flestar opna 17.júní og eru opnar til 23.júní eða lengur) og um 20 hliðarviðburðir aðrir, frá 17.-23.júní.

Vitið þér enn – eða hvað? er tilvísun í völvuna sem sá fram og tilbaka í tíma, og kenndi goðum og Jarðar börnum að skilja samhengið milli fortíðar og framtíðar, róta og greina.  Mardöll er eitt af heitum Freyju og heitið Fólkvangur kemur þaðan, Fólkvangur er bústaður Freyju.  Eins og yfirskriftin ber með sér, er tilgangurinn sá að koma á samtali um það hvernig við getum nýtt rætur okkar, og þá sérstaklega hinar þögguðu kvennamenningarrætur, til að byggja „nýja jörð“. Eins og segir í Völuspá: „Sá hún upp rísa jörð úr ægi, iðjagræna.“

Erlendu gestir Fólkvangsins, þær Brita Haugen, Caitlín Matthews, Eivör Pálsdóttir, Ewa Larsson, Kaarina Kailo, Lene Therese Teigen og Marit Myrvoll, eru misvelþekktar hér á landi, en eru allar frumkvöðlar og/eða mikilvirkar á sínu sviði erlendis. Sumar eru þekktar sem rithöfundar og listakonur, lesnar og leiknar víða um heim, aðrar eru stjórnmálakonur, framákonur  og fræðikonur í hreyfingu grænna femínista, og allar eru virtar kvennabaráttukonur sem berjast fyrir breyttum viðhorfum til Móður Jarðar og íbúa hennar.  Íslenskir fyrirlesarar og listafólk sem kemur fram í aðaldagskrá eru Anna Richards og félagar;  kvæðamennirnir Georg, Rósa og Þór; Kristjana Arngrímsdóttir, Valgerður H. Bjarnadóttir, Þóra Pétursdóttir, Guðrún Þórsdóttir og fjöldi annarra.  Auk þess eru tugir kvenna og karla sem taka beinan þátt í sýningum, vinnustofum, tónleikum og öðrum hliðarviðburðum.

Mardöll tók höndum saman við AkureyrarAkademíuna, Jafnréttisstofu, Norrænu upplýsingaskrifstofuna, Listasumar, Handraðann, Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, Minjasafnið á Akureyri, Vanadís o.fl. til að koma verkefninu á og fær styrki til framtaksins frá Norræna menningarsjóðnum, menningarsjóðum Clara Lachmann og Letterstedtska, Eyþings og Akureyrarbæjar.  Sjá nánar á www.mardoll.is

Nýjast