Vinna á Atvinnu- og nýsköpunarhelginni á Akureyri komin í fullan gang

Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, setti Atvinnu- og nýsköpunarhelgina í Háskólanum á Akureyri, formlega seinni partinn í dag. Í kjölfarið hófst annasöm vinnuhelgi hjá fjölda manns, í kvöld, á morgun laugardag og á sunnudag. Forseti Íslands hvatti þátttakendur til dáða í ávarpi sínu en alls voru kynntar til sögunnar 27 tillögur, sem þátttakendur hafa áhuga á að vinna með næstu daga.  

Helgin er hugsuð til þess að hvetja fólk til athafna og vinna að nýjum og núverandi viðskiptahugmyndum. Verkefnið hófst sem samstarfsverkefnis sjálfstæðra atvinnurekenda á Akureyri. Menn tóku sig saman og ákváðu að mikilvægt væri að blása líf í atvinnulífið í bænum og öllu Íslandi með kraftmikilli helgi. Fjölmargir sérfræðingar, auk starfsfólks Innovit, eru á staðnum og leiðbeina og vinna með fólki að þróun viðskiptahugmynda. Þar má sem dæmi nefna Guðjón Már Guðjónsson, framkvæmdastjóra Medizza og Agnar Sigmarsson einn stofnenda Transmit. Guðjón Már flutti ávarp og miðlaði af áralangra reynslu sinni til þátttakenda en hann hefur stofnað fjölmörg fyritæki, m.a. OZ og Íslandssíma, sem nú heitir Vodafone.

Þær hugmyndir sem eru áhugaverðastar eiga síðan kost á því að fá vegleg verðlaun sem veitt verða eftir kynningu fyrir dómnefnd á sunnudag.

Nýjast