Kristján Þór bendir á að þetta snerti beint Bruggsmiðjuna á Árskógsströnd, Vífilfell á Akureyri og raunar fleiri fyrirtæki á landsbyggðinni sem þurfa að kosta flutning á framleiðslu sinni á stærsta markaðssvæði landsins. "Það undarlega í málinu er það að ef Kaldi eða Viking væru bruggaðir í Reykjavík þá ber ÁTVR alla kostnaðinn af því að koma framleiðslunni út um allt land."
Í greinargerð með tillögunni kemur m.a. fram að hún byggi á vinnu starfshóps um fyrirkomulag flutningsjöfnunar sem skipaður var af viðskiptaráðherra árið 2007 og skilaði af sér skýrslu í júlí 2008. Í skýrslunni eru kynntar tillögur nefndarinnar til að jafna flutningskostnað þannig að hann verði fyrirtækjum ekki verulega íþyngjandi. Rannsóknir hafa sýnt að kostnaður við flutning á vöru til og frá fyrirtækjum sem starfa utan helsta þéttbýlissvæðis landsins skekkir samkeppnisstöðu þeirra á innanlandsmarkaði og í útflutningi.
Ennfremur segir í greinargerðinni, að í reglum ÁTVR, um vöruval og sölu áfengis og skilmála í viðskiptum við birgja sem settar eru með heimild í reglugerð um Áfengis og tóbaksverslun ríkisins, sé að finna dæmi um regluverk þar sem flutningskostnaður er íþyngjandi fyrir fyrirtæki á landsbyggðinni. Þar segir að hverja pöntun skuli afhenda sérstaklega í vöruhúsi ÁTVR í Reykjavík. Samkvæmt reglum þessum hefur ÁTVR eina móttökustöð fyrir áfengi á landinu öllu. Það gefi auga leið að þetta fyrirkomulag skekki mjög samkeppnisstöðu áfengisframleiðenda á landsbyggðinni þar sem ÁTVR sér um alla dreifingu fyrir framleiðendur sem staðsettir eru á höfuðborgarsvæðinu.
Jafnframt er kveðið áum í reglugerðinni að reglurnar skuli „tryggja framleiðendum og birgjum áfengis möguleika á að koma vörum í sölu í vínbúðum." Með því að kveða á um eina móttökustöð er mjög dregið úr möguleikum þeirra framleiðenda sem eru á landsbyggðinni og því augljós brotalöm í regluverkinu. Þessu mætti auðveldlega breyta og ekkert virðist standa því í vegi að ÁTVR taki á móti vörum á fleiri stöðum á landinu, t.d. í hverjum landsfjórðungi. Á þennan hátt mætti koma í veg fyrir að vörum yrði ekið fram og til baka um landið með tilheyrandi kostnaði og óþarfa fyrirhöfn. Auk þess starfar fjöldi fólks á landsbyggðinni við framleiðslustörf af þessu tagi en þau störf gætu verið í hættu vegna þessa mismunar á aðstöðu framleiðenda. Fyrir þessari breytingu má færa bæði þjóðhagsleg rök og byggðarök auk þess sem almenn sanngirnissjónarmið hníga að því að reglunum verði breytt, hlutur landsbyggðarinnar réttur og samkeppnisstaða framleiðenda þar styrkt, segir í greinargerð með tillögunni.
Loks er þess getið að í skýrslu starfshóps um fyrirkomulag flutningsjöfnunar kemur fram að veittar hafa verið óformlega undanþágur til afhendingar á öðrum dreifingarstað. Er það gert á grundvelli undanþáguákvæðis í umræddum reglum sem kveður þó á um að sérstakar aðstæður skuli vera fyrir hendi. Ekki liggur fyrir hvaða aðstæður um ræðir og eðlilegra að hafa reglur sem þessar almennt orðaðar og skýrar. Þá er augljóst af framkvæmdinni og þeim undanþágum sem veittar hafa verið að hægur vandi er að breyta framkvæmdinni, segir ennfremur.