Vill efna til íbúakosningar um vindmyllugarð á Hólaheiði

Kolbrún Ada Gunnarsdóttir, forseti sveitarstjórnar Norðurþings segir í samtali við Vikublaðið að hún vilji kanna betur vilja íbúa sveitarfélagsins til vindorkuvers á Hólaheiði sem Qair Iceland ehf. hyggst reisa; áður en aðalskipulagi verði breytt.

Hún lagði fram tillögu á fundi byggðarráðs um að breyting á aðalskipulagi vegna vindorkuversins verði frestað þar til umhverfismati er lokið.

Kolbrún

„Umfjöllun sveitarstjórnar Norðurþings um skipulagsbreytingar í tengslum við orkuverið verði frestað þar til umhverfismati er lokið að fullu. Með þeim hætti verði málsmeðferð best háttað enda liggja þá niðurstöður ítarlegra rannsókna, upplýsingaöflunar og opinbers samráðs fyrir áður en sveitarstjórn tekur sínar veigamiklu stefnumarkandi ákvarðanir um landnýtingu í gegnum Aðalskipulag. Sveitarstjóra er falið að gera þegar í stað þær ráðstafanir sem þarf til þessa,“ segir í tillögu Kolbrúnar Ödu.

Skeptísk á framkvæmdirnar

„Það hefur ekki dulist að ég er mjög skeptísk á þessar framkvæmdir,“ segir Kolbrún og bætir við að henni þyki of geyst farið fram að breyta aðalskipulagi. „Það finnst mér vera mjög stór breyting sem er mjög stefnumarkandi fyrir sveitarfélagið. Þegar ég fór að lesa mér til og kynna mér athugasemdir frá íbúum, þá fannst mér við ekki alveg vera á réttri leið. Mér fannst að við þyrftum að eiga samtal við íbúana og skoða þetta betur út frá því. Sveitarfélagið hefur ekkert markað sér stefnu í þessum málum. Mér finnst þetta full stórt skref að breyta aðalskipulagi á þessum tímapunkti í ferlinu. Það er yfirleitt endapunktur á svona ferli,“ útskýrir hún.

Þá segir Kolbrún Ada að ekki séu teikn á lofti um að framkvæmdirnar muni skapa atvinnu á svæðinu. „Ég get ekki séð það miðað við þær upplýsingar sem liggja fyrir. Þetta er hvorki að fara að auka atvinnu og það er ekkert tryggt að orkan verði nýtt á svæðinu. Við höfum í raun og veru enga aðkomu að þessu. Það er ekkert í samningnum að framkvæmdaaðilar [Qair Iceland ehf] verði að gera það,“ segir hún og bætir við að hún finni fyrir andstöðu frá íbúum. „Mér finnst eftir að hafa heyrt í íbúum að það sé meiri andstaða við þetta en var í upphafi.“

Byggðarráð tekur undir

 Byggðarráð tekur undir áhyggjur Kolbrúnar Ödu en frestaði afgreiðslu tillögu hennar fram í ágúst. „Byggðarráð tekur undir þær áhyggjur sem birtast í framlagðri tillögu enda ljóst að málið er umdeilt. Skipulags- og framkvæmdaráð hefur haft til umfjöllunar athugasemdir sem borist hafa og gefa þær tilefni til frekari gagnaöflunar meðal íbúa á svæðinu, áður en lengra er haldið. Sveitarstjóra er falið að efna til íbúakönnunar um afstöðu til fyrirhugaðra breytinga á aðalskipulagi m.t.t. uppbyggingar vindorkuvers, þannig að niðurstöður liggi fyrir við afgreiðslu tillögu Kolbrúnar Ödu í ágúst. Þá er sveitarstjóra falið að upplýsa væntanlega framkvæmdaaðila um framkomna tillögu og stöðu málsins,“ segir í bókun ráðsins.


Nýjast