„Við hlökkum til að tengjast, kynnast og læra“

Huld Hafliðadóttir forstöðukona (til hægri) ásamt Bridget Burger, Fulbright sérfræðingi í STEM kenns…
Huld Hafliðadóttir forstöðukona (til hægri) ásamt Bridget Burger, Fulbright sérfræðingi í STEM kennslu en þær standa að uppbyggingu fræðslunetsins.

Dagana 1. – 3. maí fór fram árleg ráðstefna STEM Learning Ecosystems starfssamfélagsins (SLE Community of Practice) sem haldin er af TIES (Teaching Institute for Excellence in STEM) í Flórída í Bandaríkjunum. Starfssamfélagið samanstendur af 111 námsvistkerfum sem deila reynslu, aðferðum og niðurstöðum sín á milli. STEM Húsavík var í hópi 9 nýrra námsvistkerfa sem tekin voru formlega inn í starfssamfélagið á ráðstefnunni. Með námsvistkerfi er átt þá fjölbreyttu anga samfélgasins sem STEM bindur saman; Skóla, atvinnulíf, fræðasamfélagið og ekki síður náttúruna sjálfa.

„Það er mikill heiður að hafa verið valin til að vera hluti af STEM Learning Ecosystems starfssamfélaginu og vera loksins komin á kortið, að ekki sé tala um að vera fyrst á Norðurlöndunum og N-Evrópu,“ segir Huld Hafliðadóttir forstöðukona STEM Húsavík. 

Mf: Spennandi tímar framundan

Hún segir spennandi tíma framundan. „Við hlökkum til að tengjast, kynnast og læra af hinum 110 námsvistkerfunum sem byggja samfélagið.“

STEM Húsavík verður á næstu vikum tengt við annað námsvistkerfi sem mun gegna leiðsagnarhlutverki (mentor) fyrstu misserin. „Við bíðum spennt eftir að fá að tengjast inn í þennan litríka og fjölbreytta heim,“ segir Huld.

Flest námsvistkerfin starfa vítt og breytt um Bandaríkin, en þeim hefur undanfarin ár fjölgað jafnt og þétt utan Bandaríkjanna og er nú að finna SLE námsvistkerfi í Kanada, Mexíkó, Kenýu og Ísrael ásamt Íslandi. Námsvistkerfin ná samanlagt til yfir 42 milljóna skólabarna á leik- og grunnskólaaldri og eru yfir 900.000 kennarar og leiðbeinendur hluti af því.

Stíga risaskref

„Þetta er mjög stórt skref fyrir okkur, við erum að tengjast starfssamfélagi yfir 100 annarra námsvistkerfa sem hvert og eitt samanstendur af fjölbreyttum geirum og stoðum innan hvers samfélags. Flest hafa byggst upp í Bandaríkjunum en við erum núna að sjá starfssamfélagið verða alþjóðlegra og erum t.d. orðin hluti af sérstökum alþjóðahópi innan SLE starfssamfélagsins sem kemur til með að hittast mánaðarlega. Þannig fáum við að taka þátt í að móta alþjóðlegu vinnuna við þetta og á sama tíma fáum við aðgang að og fáum tækifæri til að læra af þeim allra reynslumestu í þessum bransa. Og þegar ég á við þennan bransa þá er það samfélagsmiðuð STEM námsvistkerfi. En rannsóknir hafa sýnt að þegar fleiri standa á bakvið menntun hvers einstaklings, svo ég tali nú ekki um heilt þorp, þá verður bæði menntunin og skilningurinn dýpri og einstaklingurinn öðlast fleiri og fjölbreyttari möguleika til framtíðar,“ segir Huld að lokum.

Fagna ársafmæli

STEM Húsavík fagnar eins árs starfsafmæli núna í maí og verður opinn hádegisfundur föstudaginn 19. maí í Hraðinu á Stéttinni þar sem Huld fer yfir starfsemina síðastliðið ár, segir frá tilurð, markmiðum og framtíðarsýn.


Athugasemdir

Nýjast