Við eigum auðlindirnar. Saman.

Þorvaldur Gylfason
Þorvaldur Gylfason

Í þjóðaratkvæðagreiðslunni 2012 fengu kjósendur fengu í fyrsta sinn færi á að segja hug sinn til gamalgróinna ágreiningsefna án þess að stjórnmálaflokkarnir hefðu smalað á kjörstað og haldið uppi áróðri kostuðum af harðdrægum hagsmunahópum. Peningar komu hvergi við sögu. Úrslitin reyndust svipuð í öllum sex kjördæmum. Um landið allt lýstu 67% þeirra sem tóku afstöðu sig fylgjandi nýju stjórnarskránni og 33% voru andvíg. Í NA-kjördæmi voru hlutföllin 57% fylgjandi og 43% andvíg. Sama á við um auðlindaákvæðið, eitt mikilvægasta ákvæði frumvarpsins. Á landsvísu lýstu 83% sig fylgjandi auðlindum í þjóðareigu og 17% andvíg. Í NA-kjördæmi voru hlutföllin 73% fylgjandi og 27% andvíg.

Skýr vilji meirihlutans lá fyrir ekki bara um landið allt heldur einnig í hverju kjördæmi fyrir sig með aðeins einni undantekningu. Jafnt vægi atkvæði naut meirihlutastuðnings í fjórum kjördæmum af sex, öllum nema NV og NA.

Úrslitin þurftu ekki að koma neinum á óvart þar eð þess var gætt að hafa frumvarpið í sem fyllstu samræmi við niðurstöðu þjóðfundarins 2010 þar sem fulltrúarnir höfðu verið valdir af handahófi úr þjóðskrá, þ.e. af öllu landinu. Hefðu kjósendur hafnað nýju stjórnarskránni 2012 hefðu þeir komið aftan að sjálfum sér. Það gerðu þeir ekki. Þjóðin hafði sagt hug sinn. Þinginu bar að hlýða.

Hvað segir auðlindaákvæðið?

Í auðlindaákvæðinu stendur: „Auðlindir í náttúru Íslands, sem ekki eru í einkaeigu, eru sameiginleg og ævarandi eign þjóðarinnar. Enginn getur fengið auðlindirnar, eða réttindi tengd þeim, til eignar eða varanlegra afnota og aldrei má selja þær eða veðsetja.“ Og einnig: „Stjórnvöld geta á grundvelli laga veitt leyfi til afnota eða hagnýtingar auðlinda eða annarra takmarkaðra almannagæða, gegn fullu gjaldi og til tiltekins hóflegs tíma í senn. Slík leyfi skal veita á jafnræðisgrundvelli og þau leiða aldrei til eignarréttar eða óafturkallanlegs forræðis yfir auðlindunum.“

Fulltrúi Vinstri grænna á Alþingi breytti „fullu gjaldi“ í „eðlilegt gjald“ þvert gegn rökstuddum tilmælum Stjórnlagaráðs. Fyrir þingmanninum vakti trúlega að blíðka útvegsmenn með því að reyna að tryggja þeim stjórnarskrárvarinn afslátt af fullu gjaldi. Stjórnarskrárnefnd Alþingis 2013-2016 gerði síðan fyrir luktum dyrum aðra tilraun til að úrbeina auðlindaákvæðið enn frekar og tvö önnur ákvæði til viðbótar, en atlagan mistókst eins og vita mátti og var aðstandendum sínum til minnkunar.

Hvað segja kjósendur?

Nýlega birti MMR síðan niðurstöður nýrrar könnunar á landsvísu sem sýnir óbreyttan stuðning kjósenda við nýja stjórnarskrá. Þar kemur m.a. þetta fram:

  • 70% þeirra sem taka afstöðu telja „mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá á næsta kjörtímabili“.
  • Stuðningurinn er mikill úti á landi (63%) og enn meiri á höfuðborgarsvæðinu (74%).
  • Meiri hluti stuðningsmanna allra flokka nema Sjálfstæðisflokksins styðja nýja stjórnarskrá. Stuðningurinn er mestur meðal stuðningsmanna Pírata (99%) og Samfylkingar (98%), næstmestur meðal þeirra sem styðja Vinstri græna (92%), næst koma stuðningsmenn Viðreisnar (61%) og þá Framsóknar (55%). Þeir sem styðja Sjálfstæðisflokkinn reka lestina (19%). Björt framtíð var ekki skráð sérstaklega.
  • Stuðningurinn er meiri meðal lágtekjufólks (78%) en meðal hátekjufólks (67%).
  • Aðeins tveir hópar hafa á að skipa fleiri andstæðingum nýju stjórnarskrárinnar en stuðningsmönnum. Annar er Sjálfstæðisflokkurinn (19%). Hinn hópurinn er stjórnendur og æðstu embættismenn; innan við helmingur þeirra styður nýja stjórnarskrá (43%).

1. desember 2018

Við höfum beðið nógu lengi svo vitnað sé til orða Vigdísar Finnbogadóttur fv. forseta Íslands. Við þurfum nýja ríkisstjórn sem staðfestir nýja stjórnarskrá án frekari tafar. Þá mun þjóðin geta fagnað 100 ára afmæli fullveldisins 1. desember 2018 með sæmd. 


Athugasemdir

Nýjast