„Við erum mjög sáttir," segir Sigmundur Sigurðsson verslunarstjóri í Byko en þar hefur jólaverslun gengið vel og betur en í fyrra. „Þetta hefur gengið betur en við áttum von á og það er ánægjulegt, það virðist sem barlómur og krepputal hafi ekki skilað sér hingað," segir hann. „Við erum mjög ánægðir með okkar viðskiptavini. Mér finnst fólk hugsa öðruvísi en fyrir kreppu, 2006 og 2007 var meira óðagot, fólk keypti vörur en var ekki endilega að velta því svo mikið fyrir sér hvað það keypti. Það er rólegra yfirbragð núna, menn spá í hlutina áður en þeir eru keyptir, verð og gæði og annað." Sigmundur nefnir að sala á sjónvörpum hafi gengið mjög vel og langt umfram væntingar. „Það er greinilegt að fólk vill hafa það gott heima hjá sér, hefur ef til vill dregið úr því að sækja skemmtanir og fara til útlanda."
Óðinn Svan Geirsson verslunarstjóri í Bónus við Langholt tekur í sama streng og segir fólk úr nágrannabyggðum mikið vera á ferðinni þó veðrið hafi ekki alltaf verið til friðs. „Það hefur gengið mjög vel hjá okkur, það er meiri verslun en var til dæmis fyrir jólin í fyrra," segir hann. „Mér sýnist sem Akureyringar og nærsveitamenn hafi uppgötvað núna að þeir fóru ekki eins illa út úr kreppunni og t.d. höfuðborgarbúar."
Þórhalla Þórhallsdóttir verslunarstjóri í Hagkaup segir að mikið hafi verið um að vera í versluninni liðna daga. „Það hefur verið mikið að gera allan desember og þetta gengur mjög vel," segir hún. „Við erum ótrúlega ánægð með hversu vel hefur gengið, verslunin er meiri en í fyrra og það virðist sem fólk láti krepputal ekki á sig fá, en vissulega sjáum við að margir velja ódýrari vöru umfram þá dýrari. Við höfum reyndar lækkað verð á okkar vörum til að koma til móts við okkar viðskiptavini og það hefur greinilega mælst vel fyrir." Þórhalla segir að mikið hafi verið um utanbæjarfólk í versluninni og það hafi ekki látið snjókomu trufla ferðir sína fyrir jólin. „Þetta eru harðjaxlar sem búa hér í kringum okkur og láta ekkert stoppa sig," segir hún.