Verður SR Íslandsmeistari í kvöld?

Skautafélag Reykjavíkur getur orðið Íslandsmeistari í íshokkí karla með sigri gegn Skautafélagi Akureyrar í kvöld, er liðin mætast á heimavelli norðanmanna kl. 19:00 í þriðja leik liðanna. SR leiðir einvígið 2:0 en vinna þarf þrjá leiki til þess að verða Íslandsmeistari. SA er ríkjand meistari og þarf félagið að vinna næstu þrjá leiki til þess að verja titilinn.

Fyrirliði norðanmanna, Jón Benedikt Gíslason, kemur aftur inn í lið SA í kvöld eftir veikindi og er það mikill styrkur fyrir heimamenn. Þrátt fyrir erfiða stöðu er engan bilbug að finna á Jóni sem er bjartsýnn fyrir leikinn í kvöld.  

„Við þekkjum það ágætlega að vera í þessari stöðu og ég hef fulla trú á því að við komum til baka,“ segir hann. 

Nánar er rætt við Jón í Vikudegi í dag.  

Nýjast