Verður Oddur í HM hópnum?

Guðmundur Guðmundsson landsliðsþjálfari í handbolta mun tilkynna í dag eða á morgun hvaða 16 leikmenn hann tekur út til Svíþjóðar á heimsmeistaramótið í handbolta karla. Oddur Gretarsson og markvörðurinn Sveinbjörn Pétursson leikmenn Akureyrar voru báðir í 19 manna hópi Guðmundar fyrir leikina gegn Þjóðverjum um helgina.

Oddur og Sveinbjörn voru báðir utan hóps í fyrri leiknum en Oddur var í hópnum í gær og kom inn á snemma í seinni hálfleik og skoraði eitt mark. Oddur og Sturla Ásgeirsson, Val, koma til með að berjast um hvor muni vera á móti Guðjóni Val Sigurðssyni á vinstra horninu. Báðir komu þeir við sögu í leiknum í gær og stóðu sig vel og ljóst að erfitt val býður Guðmundar að skera hópinn niður.

 

Í samtali við Vikudag fyrir helgi sagðist Oddur eiga helmings möguleika á að komast á heimsmeistaramótið. "Maður verður að bíða og vona. Við erum í samkeppni ég og Sturla (Ásgeirsson) og það kemur bara í ljós hvað verður. Við erum samt í samkeppni í mesta bróðerni og erum ekkert að ýta í hvorn annan á æfingum," sagði Oddur meðal annars.

Það er nokkuð ljóst að Sveinbjörn Pétursson verður ekki valinn í hópinn að þessu sinni en hann kom ekkert við sögu í leikjum helgarinnar. Þá áttu þeir Björgvin Páll Gústafsson og Hreiðar Leví Guðmundsson, markverðir Íslands, góða leiki um helgina og ólíklegt að Guðmundur taki þrjá markverði út. Sveinbjörn er hins vegar aðeins 22 ára gamall og mun án efa fá sín tækifæri með landsliðinu í framtíðinni.

Nýjast