17. desember, 2010 - 08:52
Fréttir
Þórsarar fá Hött í heimsókn í kvöld á Íslandsmótinu í 1. deild karla í körfubolta og hefst leikurinn kl.
19:15 í Íþróttahöllinni. Fyrirfram eru heimamenn mun sigurstranglegri. Höttur hefur aðeins unnið tvo leiki í vetur og er í áttunda
sæti deildarinnar með fjögur stig en Þór hefur 12 stig í þriðja sæti. Þetta er jafnframt síðasta umferð deildarinnar fyrir
jólafrí og segir Sigurður Grétar Sigurðsson, aðstoðarþjálfari Þórs, ekkert annað en sigur koma til greina.
„Við verðum að klára þennan leik. Við megum ekkert við því að tapa fleiri leikjum í raun ef við ætlum að reyna að
nálgast efsta liðið aftur. Höttur er samt sýnd veiði en ekki gefin.
Þeir unnu Breiðablik í síðasta leik og eru með fínasta lið. Við höfum ekkert efni á að mæta með töffaraskap í
þennan leik, við verðum bara að mæta klárir og ef við gerum það eigum við að vinna,” segir Sigurður, en lengra viðtal við hann
má sjá í nýjasta tölublaði Vikudags.