Veitingastaðurinn Bautinn á Akureyri er 40 ára í dag

Veitingastaðurinn Bautinn á Akureyri er 40 ára í dag en hann var stofnaður 6. apríl 1971 og er elsta grillhúsið á landsbyggðinni. Stofnendur Bautans voru þeir Hallgrímur Arason, Stefán Gunnlaugsson, Jónas Þórarinsson og Þórður Gunnarsson. Síðar komu þeir Björn Arason og Sævar Hallgrímsson inn í eigendahópinn. Eigendur í dag eru hjónin Guðmundur Karl Tryggvason og Helga Árnadóttir.  

Guðmundur segir að rekstur Bautans hafi verið farsæll og gengið vel frá upphafi, þótt vissulega hafi komið erfiðar tímar. Bautinn státar þó af því að vera með elstu kennitölu landisns í veitingarekstri. "Við höfum margoft haldið því á lofti og það hefur enginn véfengt það," segir Guðmundur.  

Í tilefni tímamótanna er öllum bæjarbúum boðið í kaffi og tertu á Bautanum í dag. Á morgun verður svo haldið afmælishóf á Oddvitanum en þangað hefur öllu starfsfólki verið boðið, öllum nemunum 50 sem lært hafa á Bautanum frá upphafi og helstu samstarfsaðilum og viðskiptafélögum.

Nýjast