Veiði í Eyjafjarðará á uppleið

„Veiði í Eyjafjarðará er á uppleið, sem er ánægjulegt," segir Ágúst Ásgrímsson formaður Veiðifélags Eyjafjarðarár.  Aðalfundur félagsins var haldinn á dögunum. Á fundinum var ákveðið að arður fyrir árið 2010 skyldi notaður til að byggja upp lífríki árinnar.  

„Aðalverkefnið á því sviði nú er að lengja búsvæði bleikjunnar um átta kílómetra með því að rjúfa haft í Brúsahvammi, en þar hefur lengi verið fyrirstaða fyrir áframhaldandi göngu innst inn á dalnum," segir Ágúst.  Niðurstöður úr rannsókn Veiðimálastofnunar bendi ótvírætt til þess að sögn Ágústar að gríðarlega góð uppvaxtarskilyrði eru fyrir bleikjuna fremst í dalnum.

Veiði í Eyjafjarðará var góð síðastliðið sumar, þá veiddust um 1400 fiskar, en að sögn Ágústar voru þeir aðeins um 600 fyrir rúmum tveimur árum. Ágúst segir að hlutfall sjóbirtings sé að aukast á neðri svæðum árinnar.  Á liðnu sumri voru 200 bleikjur merktar og er stefnt að áframhaldandi merkingum næsta sumar, m.a. með radíómerkingum, þannig að hægt verði að fylgjast með hvert fiskarnir fari.

Nýjast