Sú kemur tíð að sárin foldar gróa
sveitirnar fyllast akrar hylja móa.
Brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa
menningin vex í lundi nýrra skóga.
(Hannes Hafstein)
Þetta var framtíðarsýn skáldsins, en er það svo að menningin vaxi í lundum nýrra skóga? Getur verið að skammsýni okkar sem líkja mætti við sjálfseyðingarhvöt verði til þess að við séum að afsala okkur sjálfstæðinu og því hraðar því betra.
Íslendingar standa víða að hjálpar- og uppbyggingarstarfi utan landsteinanna, styrkja vanþróuð lönd til efnahagslegs sjálfstæðis og hjálpa þeim að koma upp sjálfbærum landbúnaði, vatns- og orkuveitum, en getur hugsast að við gleymum að líta okkur nær? Gleymum því sem helst snýr að okkur sem þjóð?
1
Bóndinn
Ég hef sjálfur flutt spírað korn til sáningar til Mið-Afríkulanda, svo sem Ghana, Sómalíu, Súdan, og hef upplifað að sjá fólkið ráðast á sekkina og eta úr þeim á staðnum þar sem hungrið svarf og framtíðaráformin urðu að víkja.
En við kjósum að flytja inn sem mest af landbúnaðarvörum þrátt fyrir að okkar matvæli standi í engu að baki þeim erlendu. Vöruskiptahallinn eykst stöðugt, þ.e.a.s. við borgum fyrir ódýrari erlenda vöru en endurgreiðum hana að miklu leyti með sköttum. Ég veit þó að landbúnaðarvörur eru aðeins lítill hluti af hallanum en honum ætti að halda í lágmarki. Ættum við ekki frekar að hlúa að innlendri framleiðslu og styrkja íslenska bóndann? Það þarf ekki nema farsótt, fuglaflensu eða stríðsbrölt til að einangra okkur og þá er orðið of seint að biðja bóndann að auka framleiðsluna.
2
Varnarmálin
Ráðamenn standa á því fastar en fótunum að íslenska þjóðin verði að hafa her sér til varnar. Þó hef ég ekki enn áttað mig á því hver þessi skæði óvinur er sem við þurfum vernd gegn. Og er þetta ekki skemmtilega öfugsnúið: Við leitum eftir verndinni til þeirra tveggja þjóða sem helst hafa hvæst á okkur (þangað leitar klárinn .......)
Lítum örlítið nánar á varnarmátt væntanlegra verndara okkar, nefnilega Dana og Norðmanna, sem er - enginn. Það besta og nýjasta sem þeir eiga eru F 16 orustuflugvélar. Þetta eru í sjálfu sér ágætis flugvélar en gallinn er bara sá að F 16 hefur tæplega flugdrægi til Íslands. Þannig að nái þær hingað yfir hafið verða þær að lenda samstundis. Einhver verður því að hengja bjöllu á köttinn svo að verndararnir geti orðið á undan en flugið frá Danmörku tekur á þriðja tíma. Ef F 16 er flogið hraðar en þessu nemur verður stríðsradíus þeirra aðeins um 340 mílur sem þýðir að þær ná til Færeyja.
Hinn kosturinn er auðvitað sá að hafa stríðsvélar að staðaldri á Keflavíkurflugvelli en þá spyr ég enn og aftur: Í hvern eiga þær að skjóta?
Og gleymum því ekki að fyrir þessa þjónustu þurfum við að greiða og stríðsrekstur er aldrei ódýr. Við skulum ekki villast á þessu hernaðarbrölti og samvinnu um eftirlits- og hjálparstörf þar sem Landhelgisgæsla Íslands er í fararbroddi og lyftir iðulega Grettistaki. Ég held að fáir geri sér í raun grein fyrir öllum þeim hetjudáðum sem Gæslumennirnir okkar vinna, fæstar þeirra rata í fjölmiðlana. Öll samvinna við erlendar þjóðir um björgun og leit er sjálfsögð.
Óvinurinn, ef hann er til, er líklegast að hann komi bara með Flugleiðum og taki völdin. Hann mun að minnsta kosti ekki láta fáeinar úreltar hervélar stöðva sig og enn skal það játað að ég kem ekki auga á hunangið sem ætti að draga hann hingað, né heldur hvað hann myndi vilja sprengja hér eða hversvegna (í því tilviki að þetta verði sprengjuvargur en ekki valdafíkill).
Kemur mér þá í hug að Glistrup sagði eitt sinn í danska þinginu (og vitnaði í mömmu sína, minnir mig): „Við skulum skera niður allar fjárveitingar til stríðsreksturs en kaupa sjálfvirkan símsvara í utanríkisráðuneytið sem svarar á sjö tungumálum: Við gefumst upp."
Þetta yrði okkur töluvert ódýrara en að leigja herþotur og tilheyrandi, enginn myndi meiðast en ef óvinurinn næði engu að síður hér fótfestu þá myndi eflaust gamla víkingablóðið sjóða í okkur og við reka þá í sjóinn.
Í framhaldi af þessu er ekki nema eðlilegt að við spyrjum: Í hvaða sporum stöndum við ef símaspottinn til útlanda fær að ganga sér enn frekar til húðar með tilheyrandi sambandsslitum við umheiminn? Jú, jú, þessu fylgja leiðindi en hvað með nýfengið frelsi í viðskiptum utanlands? Sambandið rofið og viðskipta- og bankamenn horfa hjálparlausir á auða tölvuskjái, kannski svo dögum skiptir. Um leið stöðvast viðskipti sem byggjast meðal annars á því að bregðast hratt við sveiflum í kauphöllum. Mínútur, jafnvel sekúndur, geta skipt sköpum um milljarða hagnað eða milljarða tap.
Gleymum herþotunum, spörum á því sviði, en setjum þess í stað aukið fjármagn t.d. í að efla þetta viðkvæma símasamband við útlönd. Sem hefur miklu meira með sjálfstæði þjóðarinnar að gera en hervarnir, og skiptir þá engu hvort þeim er komið fyrir á dönskum, norskum eða íslenskum flugvöllum. Síminn er órjúfanlegur hluti sjálfstæðis Íslands.
3.
Flugvallamál
Flugmálayfirvöld hafa að undanförnu lagt niður flugvelli víða um land í skjóli þess að það sé of dýrt að reka þá. Þó neitar því enginn að margir þessara litlu flugvalla geta komið sér ákaflega vel þegar neyðin knýr dyra. Nýjasta uppákoman er flugvöllurinn í Ólafsfirði.
Þar standa nú yfir stórframkvæmdir við gangagerð en á sama tíma er flugvöllurinn tekinn af skrá. Í þessum skrifuðu orðum stendur stóreflis steypustöð á miðjum vellinum þannig að ómögulegt er að nota hann lengur.
Ég veit ekki hversu oft slys verða við slíkar stórframkvæmdir, eins og Héðinsfjarðargöngin eru, en eitt er víst að Ólafsfjarðarflugvöllur er gjörsamlega ónothæfur sem stendur. Þröng göngin um Múlann, eða oft á tíðum ógreiðfær Lágheiðin, verða þá eini kosturinn til að koma sjúklingi á sjúkrahús.
Þeir sveitastjórnarmenn sem ég hef talað við hafa undantekningarlítið verið viljugir að taka að sér viðhald flugvalla í héraði og það með stolti. Í raun þarf ekki annað en að valta þá eða slá og halda við merkingum og vindpokum. Vandamálið er að enginn hefur boðið þeim þennan valkost. Vellirnir eru bara slegnir af, orðalaust.
Flugmálastjórinn fyrrverandi, Agnar Kofoed-Hansen heitinn, sagði einu sinni að hlutverk sitt og stofnunarinnar væri að hlú að flugrekstri og gera veg hans sem mestan. Nú, á öndverðri 21. öld, virðist einhver önnur hugsun ráða ríkjum hjá flugyfirvöldum, og það þrátt fyrir hversu stór þáttur flugið er í íslensku þjóðlífi. Ég skora því hér með á þau yfirvöld sem þessu ráða að endurskoða afstöðu sína til smávallanna.
Ég hef nú tiplað á nokkrum atriðum sem mér eru hugleikin og eru ofarlega á baugi. Af miklu meira er að taka. Niðurstaða mín er sú að við verðum fyrr en síðar að fara í ítarlega naflaskoðun. Hver er staða okkar og hvert viljum við stefna þjóðmálum okkar í framtíðinni? Við verðum að vera hreinskilin, jafnvel óvægin við sjálf okkur, og ekki samþykkja neinar goðsagnir. Mér er til dæmis spurn, hvaða vitræn rök mæla með hvaladrápi? Ég hef ekki heyrt þau ennþá.
Akureyri í janúar 2007.
Höfundur er forseti Flugmálafélags Íslands