Valur tryggði sér sæti í úrvalsdeildinni

Valur tryggði sér í kvöld sæti í Iceland Express deild karla í körfubolta eftir sigur gegn Þór, 96:74, í oddaleik í úrslitum 1. deildarinnar í Höllinni á Akureyri. Valur vann því einvígið 2:1 en allir sigrarnir í einvíginu unnust á útivelli. Þeir Calvin Wooten og Philip Perre fóru fyrir sterku liði Vals í kvöld og heimamenn áttu fá svör við góðum leik þeirra beggja. 

Eftir jafna byrjun í leiknum fóru gestirnir að síga framúr hægt og bítandi en það var í þriðja leikhluta sem Valsmenn lögðu grunninn að sigrinum. Með frábærri byrjun í leikhlutanum náði liðið mest 21 stigs forystu.

Það reyndist hreinlega of mikið fyrir Þórsara að vinna upp og þurfa þeir því að sjá á eftir úrvalsdeildarsætinu í hendur Valsmanna.

Óðinn Ásgeirsson var stigahæstur hjá Þór í kvöld með 21 stig og þeir Dimitar Petrushev og Konrad Tota komu næstir með 17 stig hvor.

Hjá Valsmönnum var Calvin Wooten stigahæstur með 30 stig og Philip Perre skoraði 24.

Nýjast