Akureyri byrjaði leikinn betur og var ávallt skrefinu á undan, vel studdir af áhorfendum að norðan sem voru býsna margir í Höllinni í dag og fór mun meira fyrir þeim í upphafi leiks en stuðningsmönnum Vals á áhorfendapöllunum. Norðanmenn komust í 3:1 eftir sjö mínútna leik. Sveinbjörn Pétursson var í stuði í fyrri hálfleik með 9 skot varin. Valsmenn hleyptu þeim ekki langt frá sér og á 23. mínútu kom Sturla Ásgeirsson Valsmönnum yfir í fyrsta sinn í leiknum, 11:10. Valur komst svo tveimur mörkum yfir, 13:11, þegar þrjár mínútur voru til hálfleiks. Akureyri jafnaði leikinn en Valsmenn skoruðu síðasta marka fyrri hálfleiksins og fóru með eins marks forystu í leikhlé, 14:13.
Leikurinn var í járnum framan af seinni hálfleik. Akureyri byrjaði vel líkt og í fyrri hálfleik og skoraði fyrstu tvö mörkin og breyttu stöðunni í 15:14. Sóknarleikur Akureyrar var hins vegar í molum framan af seinni hálfleik. Að sama skapi héldu Valsmenn vel í vörninni og Hlynur Morthens var heitur fyrir aftan þá í markinu. Valur náði þriggja marka forystu fyrsta skiptið í leiknum, 24:21, þegar sjö mínútur lifðu leiks.
Akureyri gafst ekki upp og saxaði á forskotið. Þegar hálf mínúta var eftir fékk Hörður Fannar Sigþórsson línumaður Akureyrar boltann og hefði getað jafnað leikinn í 25:25. Hlynur Morthens var hins vegar hetja Vals er hann varði vel frá Herði og sigurinn í höfn hjá Val. Sturla Ásgeirsson skoraði síðasta mark leiksins í þeim mund sem flautað var leikinn af. Lokatölur, 26:24.
Mörk Akureyrar: Bjarni Fritzson 7 ( 1 úr víti), Oddur Gretarsson 6 (3 úr víti), Heimir Örn Árnason 4, Guðmundur Hólmar Helgason 4, Hörður Fannar Sigþórsson 2, Daníel Einarsson 1.
Varin skot: Sveinbjörn Pétursson 16.
Mörk Vals: Sturla Ásgeirsson 5, Anton Rúnarsson 5, Orri Freyr Gíslason 5 .Finnur Ingi Stefánsson 4, Valdimar Fannar Þórsson 4, Ernir Hrafn Arnarsson 3.
Varin skot: Hlynur Morthens 11.