Vaðlaheiðarvegur sem ferðamannavegur?

Rannsókna-og þróunarstarf hefur ávallt verið þáttur í starfsemi Vegagerðarinnar. Árlega eru veittir styrkir til rannsóknaverkefna, sem nú er 1,5% af mörkuðum tekjum stofnunarinnar. Nýbúið er að kynna hluta rannsóknarverkefna á Rannsóknarráðstefnu Vegagerðarinnar. Eitt verkefnanna sem er styrkt snýr að ferðamannavegum að norskri fyrirmynd en þar hafa slíkir vegir slegið í gegn hjá ferðamönnum og almenningi öllum. Því er lýst hvernig Vaðlaheiðarvegur gæti orðið að sérstökum ferðmannavegi.  

Arnhildur Pálmadóttir arkitekt hefur unnið að verkinu og í skýrslu hennar, sem vísað er til á vef Vegagerðarinnar, kemur  m.a. fram að  mikilvægt sé að finna ákveðnar skilgreiningar sem geti myndað grunn og þannig orðið fyrirmynd við hönnun allra ferðamannavega. "Ein leiðin er að skoða vel aðstæður á ákveðnum stað. Í því samhengi var landsvegur númer 832 - Vaðlaheiðarvegur valinn. Vegurinn liggur um Steinsskarð og fer hæst í 520 metra hæð yfir sjávarmáli. Bílaumferð yfir Vaðlaheiði hófst árið 1930 en var færð norður í Víkurskarð árið 1985. Leiðin um Vaðlaheiði er áhugaverð í sjálfu sér með frábæru útsýni, áhugaverðum minjum og sínum þekktu snúningsbeygjum. Vegurinn tengir jafnframt saman tvö svæði sem eru vinsæl hjá ferðafólki hvort á sinn hátt, Akureyri og Fnjóskadal (Vaglaskóg). Vegurinn er einnig áhugaverður sem tilraunaverkefni þar sem hann er frekar stuttur, aðeins 18 kílómetrar, liggur nálægt byggð sem auðveldar viðhald og framkvæmdir. Við Akureyri tengist vegurinn Leiruvegi sem liggur yfir Leirusvæði Eyjafjarðarár. Leiran er fæðustaður margra fuglategunda á vorin og samastaður sela seinnipart veturs og fram á vor," segir í skýrslunni.

Í skýrslunni segir ennfremur. "Sumsstaðar eru 3 kynslóðir vegagerðar sjáanlegar á Vaðlaheiði. Mögulegt er að sýna uppbyggingu veganna, hvernig þeir voru lagðir og hverjir voru að nota þá. Hvernig vegagerð hefur þróast í gegnum árin og hvaða forsendur liggja fyrir vali á staðsetningu veganna, hefur það breyst með tímanum og nýrri tækni? Einnig er áhugavert að nota gamlar vegamerkingar eða þróa nýja tegund skilta fyrir ferðamannavegina sem byggð er á gömlu merkingunum.

Í hinum þekktu beygjum austanmegin í Vaðlaheiðinni (sem eru um 13 talsins) hefur verið notast við gulmálaða steina til leiðbeiningar og til að varna því að keyrt sé út úr beygjunum. Þarna er tækifæri til að vinna með merkingar sem hafa fest sig í sessi gegnum tíðina og jafnvel færa þær í nýjan búning. Áhugavert er að halda við og gera upp brýr og ræsi sem eru á svæðinu og sýna þannig hvernig ár og lækir hafa áhrif á vegagerð. Í kringum brýrnar myndast fallegir bollar þar sem áin rennur undir þær, þetta býður upp á þann möguleika að staðsetja skjólgóð sæti, borð og bekki sem áningarstað. Í tengslum við þetta þarf annað hvort að breikka vegin á pörtum svo hægt sé að leggja í vegarkantinum eða að gerð séu bílastæði. Bæði austan og vestanmegin heiðarinnar er útsýnið áhrifamikið. Á þessum svæðum mætti setja upp vegrið þar sem bratt er niður frá veginum svo hægt sé að stoppa og njóta útsýnisins. Sameina mætti hönnun vegriðs með miðlun upplýsinga um útsýnið. Handriðið gæti virkað eins og útsýnisskífa en einnig verið áningarstaður þar sem hægt er að stoppa, fara út og fá upplýsingar um staðinn. Austan megin er hægt að lesa jarðfræðina úr lagskiptingu fjallanna, vestan megin gæti það verið útsýnið og allir þeir áhugaverðu staðir sem blasa þar við eins og Hrísey, Gásir, Akureyri, Eyjafjörður, Öxnadalur, Súlur, Kaldbakur og fleira. Hægt er að setja inn sögur og frásagnir frá stöðum í kring, jafnvel frá íslendingasögunum, veiðisvæðum í firðinum og fleira. Í nágrenni Vaðlaheiðarvegarins eru nokkur mannvirki önnur en vegamannvirki, eins og gamlar réttir og húsgrunnur sem hægt væri að endurgera eða lagfæra og nota fyrir áningar eða þjónustustaði. Hægt er að staðsetja þjónustubyggingu við húsgrunn sem er efst á Vaðlaheiðinni. Ekki er vitað hvort hann er leyfar hins sögufræga "Vaðlaheiðarvegavinnuverkfærageymsluskúrs" en þetta gefur að minnsta kosti tilefni til endurreisnar hans. Mögulegt er að finna áhugaverðar útfærslur á merkingum fyrir fróðlegar upplýsingar eins og hvar hægt er að finna ákveðnar jurtir, ber og sveppi á svæðinu í kringum veginn, plöntur sem lifa í vegkantinum og einnig dýralíf.

Markhópar og helstu notendur ferðamannavega eru að líkindum göngufólk, hjólreiðafólk og ferðamenn á fólksbifreiðum. Kanna þarf mögulegt aðgengi langferðabifreiða um vegina þar sem þessháttar umferð krefst meira rýmis. Við frágang veganna þarf að huga að útskotum á ákveðnum svæðum og/eða skilgreina bílastæði. Eins og áður var nefnt gætu útskýringar og upplýsingar verið samtvinnaðar vegriðum, handriðum og útsýnissvæðum svo að ekki verði of mikið af skiltamerkingum sem geta verið lýti á umhverfinu sérstaklega á vegum þar sem náttúran og upplifun á henni er stór partur af hugmyndinni."

Nýjast