Vaðlaheiðargöng styrkja aðrar vegaframkvæmdir

Á fjölmennum fundi um samgöngubætur og samfélagsleg áhrif þeirra sem haldinn var á Akureyri í gær, lagði Jón Þorvaldur Heiðarsson, lektor við HA, áherslu á að einmitt núna, þegar vextir eru lágir og atvinnuleysi mikið, sé rétta tækifærið til að ráðast í gerð Vaðlaheiðarganga. Jón Þorvaldur vitnaði til útreikninga sem sýna að framkvæmdin muni skila allt að tveimur milljörðum króna í ríkissjóð að því gefnu að Íslendingar vinni verkið og þá fjármuni mætti nýta til vegaframkvæmda annars staðar á landinu.  

Í pallborði á fundinum var meðal annarra Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri FÍB, sem sagðist ekki vera á móti Vaðlaheiðargöngum en gagnrýndi þá útreikninga sem lagðir eru til grundvallar framkvæmdinni. Runólfur tók fram að ef hægt væri að fjármagna Vaðlaheiðargöng með veggjöldum þá væri FÍB fylgjandi gerð þeirra, enda framkvæmdin í sjálfu sér jákvæð fyrir bifreiðareigendur.

Njáll Trausti Friðbertsson, viðskiptafræðingur og flugumferðarstjóri, fjallaði í framsögu sinni meðal annars um mikilvægi Reykjavíkurflugvallar fyrir landsbyggðina og beindi sjónum sínum einnig að styttingu hringvegarins í Austur-Húnavatnssýslu um hina svokölluðu Húnavallaleið sem yrði til að stytta leiðina milli Reykjavíkur og Akureyrar um 14 km. Benti hann á að hvergi á þjóðvegi 1 er slysatíðni jafnhá og í Langadal við Blönduós en með nýrri Húnavallaleið mætti fækka slysum þar um allt að 65%. Einnig kom fram í máli Njáls Trausta að miðað við daglega umferð 750 bíla mætti með Húnavallaleið spara og draga saman akstur um 10.000 km á dag eða 3,6 milljónir km á ári.

Nýjast