Útskrifast sem rafvirki og fagnar hálfrar aldar afmæli!

Andrea Margrét Þorvaldsdóttir á heimili sínu í Fögruvík - norðan Akureyrar. Útsýnið er stórkostlegt,…
Andrea Margrét Þorvaldsdóttir á heimili sínu í Fögruvík - norðan Akureyrar. Útsýnið er stórkostlegt, í fjarska gyllir á fannhvítan Kaldbak.

Það er aldrei of seint að skella sér í nám og láta draumana rætast. Þetta eru skilaboð Andreu Margrétar Þorvaldsdóttur, sem mun útskrifast sem rafvirki frá VMA í næstu viku. Það er í mörg horn að líta fyrir Andreu þessa dagana því auk þess að ljúka náminu með formlegum hætti undirbýr hún sig núna af krafti fyrir sveinspróf í rafvirkjun í byrjun júní og einnig fagnar hún fimmtugsafmæli sínu nk. föstudag. Stórafmælis- og útskriftarveisla er því á dagskránni nk. laugardag.

Andrea er Akureyringur í húð og hár. Hún rifjar upp þann tíma sem hún var í Gagnfræðaskólanum á Akureyri og segist í raun ekki hafa útskrifast þaðan úr 9. bekk, sem í dag er 10. bekkur, því hún hafi fallið á samræmdu prófunum. Sér hafi gengið ljómandi vel í flestum fögum nema stærðfræði, sem hafi verið sér óyfirstíganlegur þröskuldur og skilaboðin hafi verið þau að hún gæti hreinlega ekki lært stærðfræði.

Þessi höfnun varðandi stærðfræðina sat í mér árum saman. Ég var alltaf á leið í skóla en ótti minn við stærðfræðina kom ekki síst í veg fyrir það. En til þess að komast í gegnum rafmagnsfræðina í rafvirkjuninni í VMA þurfti ég að komast í gegnum ákveðna stærðfræði og Hilmar Friðjóns tók mig í aukatíma fyrir lokaprófið. Hann opnaði augu mín og ég sagði við hann að það gæti ekki verið að þetta væri svona einfalt, það væri eitthvað bogið við þetta! Ég fékk 7,3 í prófinu og fyrir mig er það eins og að fá einkunnina 15!

Raunar dreif Andrea sig í nám í Skrifstofuskóla Stjórnunarfélagsins og Nýherja veturinn 1994-1995 og vann eftir það á skrifstofu Símans á Akureyri, starfaði síðan við 118, var um tíma í Reykjavík að vinna við upplýsinganúmer Símans 8007000. Kom síðan aftur norður og var verslunarstjóri og síðar innheimtustjóri í verslun Símans á Akureyri. Síðar starfaði hún m.a. á hönnunardeild Mílu á Akureyri – að tækniteikna og hanna símalínur. Árið 2008 færði hún sig yfir til Raftákns á Akureyri og vann m.a. að ljósnetsvæðingunni á Norðurlandi. Að því verkefni loknu lærði Andrea tækniteiknun með hjálp Youtube og Google og fór að tækniteikna hjá Raftákni til ársins 2019 þegar hún gerðist þjónustustjóri fyrir Vaðlaheiðargöng – sem starfsmaður Raftákns.

En hvað varð síðan til þess að Andrea ákvað að taka slaginn og skrá sig í nám í rafvirkjun?

Rafmagn hefur alltaf heillað mig og ég hugsaði að það gæti verið gaman að læra þetta. En ég ýtti þeim hugsunum jafnóðum frá mér því ég var dags daglega að takast á við svo skemmtileg og krefjandi störf og vinna með skemmtilegu fólki. En síðan sá ég auglýsingu frá VMA árið 2021 þar sem voru auglýst laus pláss í rafvirkjun og húsasmíði. Ég hugsaði með mér að ég skyldi bara henda inn umsókn, ég fengi hvort eð er synjun og þá gæti ég sagt við sjálfan mig að ég hafi sótt um en ekki komist inn. Ég gæti þá hakað í ákveðin box og lokað þeim. Mér fannst húsasmíðin líka áhugaverð en ég hugsaði með mér að að það væri ekki mjög gáfulegt að ég, kona komin á þennan aldur, væri daginn út og inn að bera spýtur upp margar hæðir í lyftulausum blokkum! Rafvirkjunin væri ekki eins átakamikil og myndi því henta mér betur. Og það varð því niðurstaðan að sækja um skólavist í rafvirkjun og sannast sagna var umsóknin mín mjög léleg. En engu að síður hringdi Baldvin Ringsted sviðsstjóri í VMA í mig og bauð mér skólavist – og bætti við að ég yrði eiginlega að svara af eða á sama dag. Og ég svaraði því strax að ég ætlaði að láta á þetta reyna. Þar með var teningnum kastað.

Í þau þrjú ár sem Andrea hefur stundað námið í VMA hefur hún verið með mörg önnur járn í eldinum. Sem fyrr segir hefur hún starfað hjá Raftákni á Akureyri og haft þar í 50% starfi á sinni könnu þjónustuver og innheimtumál fyrir Vaðlaheiðargöng. Einnig starfar hún hjá Trausta Hákonarsyni hjá rafiðnfyrirtækinu Röskur rafvirki ehf, sem er mest í skiparafmagni, og að auki hefur Andrea umsjón með tólf sumarhúsum í Fögruvík, í landi Sílastaða. Raunar býr hún í Fögruvík og segir dásamlegt að vera þar umvafin náttúrunni alla daga og bregða sér á hestbak þegar tími gefst til.

Ég hef skipulagt mig þannig að ég hef vaknað um hálf sex á morgnana og unnið í um tvo tíma fyrir Vaðlaheiðargöng áður en ég hef farið í skólann – og síðan hef ég oft nýtt eyður í stundatöflunni með því að fara inn á bókasafn í VMA og vinna fyrir Vaðlaheiðargöngin – svara fyrirspurnum, senda út reikninga og sjá um endurgreiðslur þegar það á við.
Námið í VMA hefur verið ótrúlega skemmtilegt og ég hef notið þess mjög. Auðvitað hefur þetta oft verið strembið en fólkið mitt og vinir hafa stutt mig og hjálpað mér. Rafmagnsfræðin hefur heillað mig mjög og verklegar raflagnir eru ótrúlega heillandi. Strax á annarri önninni komst ég á samning hjá Trausta Hákonarsyni og hef síðan unnið með honum þegar ég hef átt lausar stundir. Þannig hef ég náð að klára áskilinn starfstíma í ýmsum greinum rafvirkjunar fyrir ferilbókina mína og þess vegna get ég farið í sveinsprófið í rafvirkjun í byrjun júní. Undir það er ég að búa mig núna og tek tveggja helga undirbúningsnámskeið í VMA. Ég er síðan ákveðin í því í framhaldinu að fara í meistaraskólann í rafvirkjun í VMA.

Arndís Helgadóttir, sem er fædd 1989, hóf einnig nám í rafvirkjun á sama tíma og Andrea og þær hafa stutt hvor aðra dyggilega í náminu, útskrifast saman í Hofi annan laugardag og fylgjast að í gegnum sveinsprófið. Og reyndar verður Arndís að vinna í sumar með Andreu og Trausta hjá Röskum rafvirkja. Frá og með 1. júní ætlar Andrea að hella sér í fullt starf í rafvirkjuninni. Þessir vordagar 2024 eru því heldur betur viðburðaríkir hjá henni.

Skilaboð mín til fólks sem er að velta þessum hlutum fyrir sér eru einföld: Ef þess er nokkur kostur, drífið ykkur í nám. Ekki bíða, drífið ykkur strax! Ég viðurkenni fúslega að fyrsta önnin var erfið vegna þess einfaldlega að ég þurfti að læra að læra eftir öll þessi ár. En svo kom þetta smám saman. Metnaðurinn til þess að standa sig er til staðar. Á þessum aldri stunda ég og við sem eldri erum nám á allt öðrum forsendum en á yngri árum. Við erum ekki að þessu fyrir mömmu og pabba, við erum að læra vegna þess að metnaður okkar stendur til þess að mennta okkur og við viljum sanna fyrir okkur sjálfum að við getum þetta – og við getum þetta vel! Ég var elst í hópnum og kannski hef ég aðeins verið í mömmuhlutverkinu, ég skammaði ungu strákana fyrir að mæta ekki í skólann, að vera ekki búnir að læra það sem þeir áttu að læra og ég skammaði þá líka stundum fyrir umgengni. En auðvitað var þetta allt í góðu og ég hef stutt þá eins og ég get og þeir hafa hjálpað mér. Til dæmis get ég nefnt að Ævar í Fornhaga, sem útskrifaðist ári fyrr úr grunnskóla og var því 15 ára á fyrstu önninni í rafvirkjun, hjálpaði mér rosalega mikið á fyrstu önninni í bæði stærðfræði og rafmagnsfræði. Það var því hreint ekkert kynslóðabil í skólanum, þetta var frábær hópur og mér þykir óendanlega vænt um þessa krakka. Og það er líka ástæða til þess að þakka kennurunum í rafiðngreinunum af heilum hug fyrir frábæra kennslu og umhyggju.

Heimasíða VMA segir frá.


Athugasemdir

Nýjast