Útistandandi skuldir vegna kaupa á þjónustu í leik- og grunnskóla um 16 milljónir króna

Á fundi bæjarráðs Akureyrar í morgun var fjallað um lið í fundargerð skólanefndar, varðandi innheimtumál skóladeildar og skuldastöðu foreldra vegna leikskólagjalda, fæðisgjalda og frístundagjalda. Fyrir fund skólanefndar voru lagðar upplýsingar um fjölda foreldra sem eru í mestum vanda og hvernig sá vandi er samsettur.  

Fram kom að 63 foreldrar sem enn kaupa þjónustu í leik- og grunnskóla skulda samtals kr. 11.551.312 og 78 foreldrar sem eru brottfluttir eða hættir að nýta þessa þjónustu skulda kr. 4.422.751. Þessar upphæðir eru höfuðstóll skulda án kostnaðar. Skólanefnd samþykkti að leggja til við bæjarráð að leiða verði leitað til að gera þeim foreldrum sem skulda leik- og/eða grunnskólagjöld kleift að semja um uppgjör skulda sinna á þann hátt að það sé þeim viðráðanlegt. Bæjarráð samþykkti bókun skólanefndar og fól  fjármálastjóra að vinna áfram að málinu í samræmi við umræður á fundinum.

Nýjast