Útgerðarsögusýning opnar í Strandmenningarsetri Norðursiglingar

Á sunnudaginn komandi, 11. júlí kl. 10:30, verður formleg opnun á nýrri sýningu á veitingastaðnum Gamla bauk við höfnina á Húsavík. Veitingastaðurinn hefur frá upphafi hýst ýmsa muni tengda sjósókn og strandmenningu og verður sýningin glæsileg viðbót við staðinn.

Sýningin sem fengið hefur heitið, Frá fátækt til fengsældar, segir útgerðarsögu bræðranna Þórs og Stefáns Péturssona og fjölskyldna þeirra. Árið 1918 keypti faðir þeirra bræðra árabát frá Tjörnesi og urðu þeir hásetar á þessu bátskríli, aðeins 12 og 14 ára gamlir. Þar með hófst merkileg útgerðarsaga Borgarhólsbræðra sem næstu hálfa öldina áttu eftir að byggja upp myndarlega og fjölbreytta fiskvinnslu og gera út fjölmarga báta bæði frá Húsavík og suður með sjó.

Sýnnin

Í sal Skipasmíðastöðvarinnar á Gamla bauk er búið að koma upp áhugaverðum og merkum ljósmyndum úr ýmsum áttum sem sýna þá báta sem þeir bræður gerðu út, áhafnir bátanna auk mynda af síldarsöltun og ýmsu sem tengdist lífinu á síldarplaninu. Einnig má sjá mannlífsmyndir sem skarta Húsvíkingum og fleirum um og upp úr miðri síðustu öld.

Samhliða uppsetningu sýningarinnar á Gamla bauk hefur einnig verið útfærð glæsileg stafræn útgáfa af sýningunni sem verður kynnt við opnunina. Stafræna útgáfan gerir gestum kleift að skoða alla söguna og enn fleiri myndir á einfaldan hátt í síma eða spjaldtölvu.

Allir eru velkomnir á opnunina meðan húsrúm leyfir. Boðið verður upp á léttar veitingar og lifandi tónlist í anda sýningarinnar.


Nýjast