Vikudagur heyrði hljóðið í þeim Orra Blöndal leikmanni SA og Gauta Þormóðssyni leikmanni SR um leikinn í kvöld en báðir eru þeir þokkalega bjartsýnir.
„Stemmningin er bara fín hjá okkur,” segir Gauti Þormóðsson. Þrátt fyrir að SR hafi mistekist að tryggja sér titilinn í síðustu tveimur leikjum segir Gauti engan bilbug sé að finna á liðinu. „Við reiknuðum alltaf með því að þetta færi í fimm leiki. Þetta eru búnir að vera 50-50 leikir, nema fyrsti leikurinn. Þetta verður því hörkuslagur í kvöld. Við þurfum bara að vera þolinmóðir og spila okkar leik.
Okkur finnst við hafa verið liggja svolítið á þeim og stjórnað leikjunum en markvörður þeirra hefur verið mun betri en við bjuggumst við. Að okkar mati er hann búinn að halda SA inn í þessu einvígi,” segir Gauti og á þar við Ómar Skúlason markvörð SA sem hefur farið á kostum í úrslitakeppninni.
„Við þurfum hins vegar að halda áfram að skjóta á hann og vona að þetta fari að detta okkar megin. Við erum vel tilbúnir í leikinn í kvöld og við verðum með einhverja stuðningsmenn með okkur. Það er hins vegar alveg jafngaman að þagga niður í Akureyringunum eins og að skora fyrir framan fulla stúku af okkar stuðningsmönnum. Það yrði ekki leiðinlegt að taka dolluna fyrir framan SA á þeirra heimavelli,” segir Gauti Þormóðsson.
Orri Blöndal segir mikla stemmningu vera í liði SA eftir að liðið náði að knýja fram fimmta leikinn úr erfiðari stöðu. Það er óhætt að segja að stemmningin sé norðan megin og verða þeir væntanlega vel studdir af áhorfendum í kvöld.
„Við getum held ég ekki verið betur stemmdari fyrir leiknum í kvöld. Við erum á heimavelli og vonandi spilum við fyrir framan troðfulla höll, þannig að það er allt með okkur. Við fórum of sigurvissir í fyrsta leikinn og mættum hálf vængbrotnir í leik númer tvö. Síðan höfum verið að vinna á. Þetta verður erfiður leikur en ég vona að við verðum sterkari aðilinn. Ég held að SR mæti nú hálf smeykir í leikinn,” segir Orri.
Hann segir lykilinn að sigri í kvöld vera sterkan varnarleik. Hann segir það ekki koma til greina að sjá á eftir titlinum í hendur SR, á eigin heimavelli.
„Við verðum hreinlega að taka þetta. Það yrði skelfilegt að sjá þá hirða þetta af okkur hérna fyrir norðan. Ég held að ég yrði bara tárin í augunum,” segir Orri Blöndal.
N4 Sjónvarp sýndi úrslitaleikinn í beinni útsendingu í fyrra og ætlar að endurteka
leikinn núna í ár. Útsendingin hefst kl. 18.45 en N4 er á rás 24 á Digital Ísland. Leikurinn verður einnig sýndur beint á
www.N4.is