11.desember - 18.desember - Tbl 50
Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi
Þrjár viðurkenningar voru veittar á Uppskeruhátíð ferðaþjónustunnar á Norðurlandi sem að þessu sinni var haldin í Eyjafirði, í Eyjafjarðarsveit, Svalbarðsstrandarhreppi og Grýtubakkahreppi. Þær voru fyrirtæki ársins, hvatningarverðlaun ársins og fyrir störf í þágu ferðaþjónustu. Á uppskeruhátíðinni var farið í heimsóknir til ýmissa ferðaþjónustufyrirtækja á svæðinu, sem bjóða bæði afþreyingu, mat og gistingu ásamt ýmsu öðru. Hátíðin tókst afar vel og lauk með hátíðarkvöldverði á Laugaborg í Hrafnagilshverfi, kvöldskemmtun, dansi og mikilli gleði.
Pólarhestar
Viðurkenningin Fyrirtæki ársins er veitt fyrirtæki sem er búið að slíta barnsskónum og hefur skapað sér sterka stöðu á markaði. Fyrirtækið Pólarhestar hlaut viðurkenninguna í ár. Fyrirtækið er rótgróið og fagnar 40 ára afmæli á næsta ári. Þar er þó ekki slegið slöku við eftir allan þennan tíma, heldur hafa forsvarsmenn fyrirtækisins stöðugt sótt inn á markaði og aðlagað sig að aðstæðum hverju sinni. Fyrirtækið býður upp á hestaferðir allan ársins hring og leggur áherslu á persónuleg samskipti og góða tengingu við sína gesti til að tryggja að þeirra upplifun verði sem allra best.
Fjallasýn
Rúnar Óskarsson eigandi Fjallasýnar fékk viðurkenningu fyrir störf í þágu ferðaþjónustu á Norðurlandi. Fyrirtæki hans hefur verið starfandi í meira en fjörutíu ár og hefur alla tíð lagt áherslu á ferðalög um Norðurland, þá sérstaklega Norðurhjarasvæðið og Demantshringinn. Höfuðstöðvar þess eru í Reykjahverfi en býður þjónustu sína um allt land sé þess óskað. Rúnar hefur verið mikill talsmaður þess að vetrarferðaþjónusta á Norðurlandi verði efld, til að renna styrkari stoðum undir bæði hans fyrirtæki og önnur í ferðaþjónustu eða henni tengdri.
Kakalaskáli
Kakalaskáli á Kringlumýri í Skagafirði hlaut hvatningarverðlaun árins. Þar er hægt að sjá sýningar um sögu Sturlungaaldar og hinn mannskæða Haugsnesbardaga sem var háður í apríl 1246.