Unnið að því að finna lausn á aðkomu að Lundarskóla

Lundarskóli og íþróttasvæði KA. Mynd: Hörður Geirsson.
Lundarskóli og íþróttasvæði KA. Mynd: Hörður Geirsson.

Skipulagsnefnd Akureyrarbæjar tók fyrir á fundi sínum í vikunni erindi sem Ólafur Jónsson D-lista, lagði fram á fundi bæjarráðs nýlega, í tengslum við lagningu Dalsbrautar. Ólafur spurðist fyrir um hvenær vinna við breytingar á deiliskipulagi Lundarskóla og íþróttasvæðis KA vegna lagningar Dalsbrautar hefjist og hvenær sé áætlað að breytt deiliskipulag verði auglýst.

Einnig hvort myndaður verði sameiginlegur samráðshópur Lundarskóla og KA í þessari deiliskipulagsvinnu. Ólafur spurði hvort búið sé að taka afstöðu til staðsetningar innkeyrslu að Lundarskóla frá Dalsbraut og hvort gert sé ráð fyrir löglegum keppnisgervigrasvelli sunnan við íþróttahús KA í breyttu deiliskipulagi.

Svar skipulagsnefndar við fyrirspurn:

1. Vinnuhópur Dalsbrautarverkefnisins hefur átt í viðræðum við forsvarsmenn Lundarskóla og KA um breytingar á deiliskipulagi svæðisins þar sem markmiðið var að finna lausn á ýmsum fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulaginu s.s. nýrri aðkomu að Lundarskóla og möguleikum á stækkun svæðis KA. Í framhaldi af þeim viðræðum er gert ráð fyrir að farið verði í vinnu við breytingu á deiliskipulagi svæðisins.

2. Skipulagsnefnd gerir ráð fyrir að vinnuhópur Dalsbrautarverkefnisins haldi áfram að ræða við forsvarsmenn Lundarskóla og KA um breytingar á deiliskipulagi svæðisins þegar sú vinna fer í gang.

3. Samkvæmt tillögu að deiliskipulagi Dalsbrautar er gert ráð fyrir heimild fyrir breyttri aðkomu að Lundarskóla. Þar er einnig sýnd núverandi aðkoma að Lundarskóla. Hluti verkefnis vinnuhópsins er að komast að niðurstöðu um lausn á aðkomu að Lundarskóla.

4. Þar sem vinna við breytingu á deiliskipulaginu hefur ekki farið af stað er ekki hægt að svara fyrirspurninni á þessi stigi. Sjá einnig svar við lið nr. 1 og 2.

Auður Jónasdóttir V-lista tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

Nýjast