Umsóknum um aðstoð hefur fjölgað jafnt og þétt

Frá Akureyri   Mynd akureyri.is
Frá Akureyri Mynd akureyri.is

„Það hefur verið stöðug aukning og fleiri umsóknir borist til okkar á þessum fyrstu þremur mánuðum ársins en á sama tímabili í fyrra,“ segir Herdís Helgadóttir formaður Velferðarsjóðs Eyjafjarðarsvæðis. Hjálparstarf kirkjunnar, Hjálpræðisherinn á Akureyri, Mæðrastyrksnefnd Akureyrar og nágrennis og Rauði krossinn við Eyjafjörð standa að sjóðnum.

Herdís segir að greinilegt sé að svigrúm fólks í fjármálum hafi minnkað til muna síðustu misseri í því efnahagsástandi sem ríkir í landinu, háir vextir og mikil verðbólga hafi víða sett strik sitt í reikninginn hjá fólki. „Við finnum að húsnæðiskostnaður er orðinn mjög íþyngjandi, hvort sem fólk greiðir leigu eða er í eigin húsnæði. Matarkarfan hefur líka hækkað verulega. Þetta er ekki neinn lúxus sem fólk er að leyfa sér, heldur grunnþarfir sem hafa tekið sífellt meira til sín. Staðan er víða þannig að fólk hefur of lítið á milli handanna. Það á erfitt með að mæta óvæntum útgjöldum sem allir þó lenda í af og til,“ segir Herdís.

 Hún segir að sá hópur sem leitað hafi á náðir Velferðarsjóðs undanfarna mánuði sé ekki einsleitur. „Þetta er alls konar fólk, Íslendingar og útlendingar, fólk á öllum aldri, einstæðingar, öryrkjar, barnafólk, bara mjög fjölbreyttur hópur sem lýsir því vel að staðan er víða mjög erfið,“ segir Herdís.

Skoða að útvíkka tekjuöflun

Velferðarsjóður hefur safnað fé fyrir jólin og hafa fjölmargir lagt honum lið með ríflegum framlögum. Staða sjóðsins er þannig að hætta er á að eftirspurn verði umfram getu sjóðsins. Nú segir Herdís að huga þurfi að því að auka tekjur sjóðsins á öðrum árstímum. Mikið er veitt úr sjóðum í kringum jólahátíðina og sem dæmi afgreiddi sjóðurinn yfir 500 umsóknir í fyrra á tímabilinu frá janúar til nóvember. „Mér sýnist stefna í að auking verði á milli ára í ljósi þess hvernig fyrstu mánuðir ársins hafa verið. Óvissan er líka erfið, það er ómögulegt að sjá hvenær staðan færist til betri vegar og róðurinn léttist.

Margir eru með bogann spenntan til hins ýtrasta.


Athugasemdir

Nýjast