Á kvöldunum er spurt hvort að þjóðgildin séu bara orðin tóm, hvort þau eigi erindi til okkar og hvort þau skipti máli. Framtakinu er ætlað að skapa umræðu um þjóðgildin sem slík, innihald þeirra og tengsl þeirra við kristna siðfræði og hefðina í landinu. Það er Eyjafjarðar- og Þingeyjarprófastsdæmi sem stendur fyrir fræðslukvöldunum í samstarfi við Glerárkirkju.
Til grundvallar umræðunni liggur bók Gunnars Hersveins ÞJÓÐGILDIN sem kom út hjá Skálholtsútgáfunni í lok síðasta árs. Bók Gunnars byggir á niðurstöðum frá Þjóðfundi 2009 þar sem reynt var að kalla fram visku fjöldans. Vert er að nefna að bókin Þjóðgildin var tilnefnd ásamt níu öðrum bókum frá liðnu ári til viðurkenningar Hagþenkis - félags höfunda fræðirita og kennslubóka. Viðurkenningarráð Hagþenkis gaf bókinni eftirfarandi umsögn: "Hógvær en beitt rökræða um þau kjölfestuhugtök og gildi sem íslensk menning þarfnast við uppbyggingu þjóðar.
Umræðukvöldunum var ýtt úr vör þann 7. febrúar síðastliðinn, en það kvöld flutti Gunnar Hersveinn erindi um þá sýn sem hann hefur á gildi almennt og þjóðgildin sér í lagi. Kvöldin hafa einkennst af lifandi og fjölbreyttri umræðu þar sem innlegg frummælenda mætir hugleiðingu einstaklings úr röðum kirkjunnar fólks. Frummælendur eru tilnefndir frá þeim flokkum og stjórnmálahreyfingum sem sæti eiga í bæjarstjórn Akureyrarbæjar. Til þess að umræðan nái til sem flestra eru framsöguerindin tekin upp á myndband og birt í heild sinni á youtube, auk þess sem flestar hugleiðingarnar eru birtar á trú.is. Samantekt frá hverju kvöldi fyrir sig má lesa á vef prófastsdæmisins, www.kirkjan.is/naust