Umhverfisnefnd samþykkir ekki hugmyndir um virkjun á Glerárdal

Á fundi umhverfisnefndar Akureyrar í gær var tekið fyrir erindi frá Andra Teitssyni framkvæmdastjóra Fallorku ehf sem vísað var til nefndarinnar úr bæjarráði. Andri Teitsson mætti á fundinn og kynnti hugmyndir að hugsanlegri vatnsaflsvirkjun á Glerárdal. Að mati umhverfisnefndar er gilið, áin og umhverfi þess verndað og því kemur ekki til greina að brjóta gegn þeirri verndun eða breyta áður gerðri stefnumörkun nefndarinnar varðandi Glerárdal og Glerá.  

Fyrir liggur í lýsingu á verkefni þessu að til stendur að gera stíflu, allt að þriggja metra háa innan hins verndaða svæðis. Á þeim tímum sem áin er lítil mun vatnsmiðlun taka nánast allt tiltækt vatn úr ánni og hún því alveg horfin í gilinu verulegan hluta ársins.
Fyrir liggur stefnumörkun um að Glerárdalur verði útivistar og fólkvangur til framtíðar. Vinna við það verkefni er hafin. Verndarsvæði skv. aðalskipulagi Akureyrar 1998-2018 og náttúruminjar skv. skrá Náttúruverndar ríkisins eru: Hólmarnir í Eyjafjarðará
Glerárgil frá Bandagerðisbrú upp á móts við Hlífá á Glerárdal. Krossanesborgir frá túnum í Ytra-Krossanesi og út fyrir Lónið.
Petrea Ósk Sigurðardóttir óskaði bókað á fundi umhverfisnefndar, að ef farið verður út í virkjun á þessu svæði þá verði Fallorku ehf falin sú framkvæmd.

Nýjast