15. ágúst, 2007 - 13:57
Fréttir
Álþynnuverksmiðja mun rísa á Akureyri og taka til starfa á næsta ári. Við þetta skapast um 90 ný störf í bænum. Byggt verður 5000-8000 fermetra húsnæði undir starfsemina en verksmiðjunni hefur verið valinn staður í Krossanesi. Hér er um að ræða heildarfjárfestingu upp á um 10 milljarða króna og ráðgert er að útflutningsverðmæti verksmiðjunnar verði um 7-9 milljarðar króna á ári. Fyrr í dag var undirritaður raforkusamningur milli fyrirtækisins Becromal á Íslandi og Landsvirkjunar vegna fyrirhugaðrar álþynnuverksmiðju. Við sama tækifæri var undirritaður samstarfssamningur milli Akureyrarbæjar og Becromal um atriði er snerta lóð verksmiðjunnar og staðsetningu á Akureyri. Athöfnin fór fram í Listasafninu á Akureyri að viðstöddum iðnaðarráðherra, fjármálaráðherra, forsvarsmönnum Landsnets, Landsvirkjunar, fjárfestingafélagsins Strokku Energy ehf., fulltrúum Akureyrarbæjar og fleirum. Nánar um málið í Vikudegi á morgun.