Um 430 manns á Akureyri eru án atvinnu að öllu leyti, eða 4,5% og er stærstur hluti þess hóps ungt fólk á aldrinum 25 til 29 ára, að sögn Soffíu. „Í rauninni má segja að staðan sé ótrúlega góð miðað við hvernig ástandið er í þjóðfélaginu en á það ber að líta að september er alltaf besti mánuðurinn. Vanalega fer fólki svo fjölgandi á atvinnuleysisskrá þegar líður á haustið og veturinn og janúar er jafnan þyngstur."
Soffía nefnir að starfsfólk í ferðaþjónustu sé enn að og hafi ekki borið mikið á samdrætti í þeim geira enn, verslun sé einnig með ágætum og þá hafi það verið gleðilegar fréttir að Icelandairhótels ætli sér að breyta gamla Iðnskólanum í hótel í vetur og hefja starfsemi næsta sumar. Soffía segir að ástandið nú beri meiri keim af þeim árstíðarsveiflum sem jafnan eru í atvinnulífinu fremur en að það sé krepputengt. Hún nefnir að flestir iðnaðarmenn sem hún hitti að máli séu bjartsýnir, m.a. vegna þess að viðtökur við átakinu; Allir vinna, hafi verið einkar góðar. Fjöldi iðnaðarmanna hafi fengið verkefni í tengslum við það átak. Hvað unga fólkið varðar er verkefnið „Ungt fólk til athafna" í gangi sem miði að því að koma því í virkni sem og ÞOR „Þekking og reynsla" sem er virkniverkefni fyrir langtímaatvinnulausa. „Þessi verkefni ganga vel, enda fjöldi úrræða í boði," segir Soffía.