Grunnskólar Akureyrarbæjar eru þar með orðnir 9 og til viðbótar er einn sérskóli, Hlíðarskóli. Í Naustaskóla verða um 150 nemendur á aldrinum 6 til 12 ára þetta fyrsta starfsár skólans. Mjög vel gekk að manna grunnskólana á Akureyri að sögn Gunnars Gíslasonar skólafulltrúa. Ekki var óalgengt að 6 umsóknir væru um hverja stöðu sem auglýst var. Hlutfall fagmenntaðra er rétt um 100%. Mikill stöðugleiki hefur einkennt starfsmannahaldið undanfarin ár, sem er mikill styrkur fyrir allt faglegt starf, því grundvöllur þess byggist á hæfu og metnaðarfullu starfsfólki. Í grunnskólunum eru nú 281 stöðugildi við stjórnun, kennslu og ráðgjöf og 97 stöðugildi við önnur stöf s.s. umsjónarmenn húsa, skólaliðar, stuðningsfulltrúar og ritarar. Ríflega 400 starfsmenn sitja í þessum 378 stöðugildum. Stöðugildafjöldi starfsmanna er óbreyttur á milli skólaára.
Af þessu má leiða að skólahald verður með svipuðu sniði þetta skólaár og verið hefur. Meðaltal nemenda í námshópi er það sama og undanfarin ár eða um 20 nemendur. Þetta á einnig við þegar skoðaður er fjöldi nemenda á stöðugildi kennara sem er í raun betri mælikvarði, því algengt er að fleiri en einn kennari komi samtímis að kennslu hvers námshóps. Fjöldi nemenda á stöðugildi kennara var ríflega 10 á sl. skólaári og verður eins á þessu ári.
Á þessu ári hefur verið gripið til margþættra ráðstafana til að lækka rekstrarkostnað skólanna. Þetta hefur leitt til þess að þröngt er um öll aðföng og einnig hefur þurft að hætta ýmsum hliðarverkefnum. Þessar aðgerðir eiga ekki að vera mjög íþyngjandi fyrir skólastarfið en líklegt er að margir finni fyrir þeim að einhverju marki. Dæmi um slíkar aðgerðir er að nú loka frístundir grunnskólanna kl. 16.15 en ekki 17.15 eins og áður. Þrátt fyrir þrengri fjárhag er að sögn Gunnars hugur í starfsmönnum og verður haldið áfram að vinna að fjölmörgum verkefnum sem líkleg eru til að bæta skólastarfið enn frekar.