Um 180 konur frá fjórum löndum sækja umdæmisþing Zonta á Akureyri
Ragnheiður Hansdóttir í Zontaklúbbi Akureyrar, er umdæmisstjóri í umdæmi 13. Hún segir að umdæmisþing sé haldið annað hvert og þá í heimalandi umdæmisstjórans hverju sinni. Næst verður þingið haldið í Stavaenger, þar sem sú sem tekur við af Ragnheiði á heimsþingi í Torinó í júlí á næsta ári, er norsk. Ragnheiður tók við umdæmisstjórastarfinu á heimsþingi sem haldið var í Texas á síðasta ári.
Á Akureyri eru tveir klúbbar, Zontaklúbbur Akureyrar, með 36 félaga og Zontaklúbburinn Þórunn hyrna, með 25 félaga. Ragnheiður segir að klúbbarnir séu tveir á Akureyri, þar sem ekki sé talið æskilegt að félagar séu fleiri en 40. "Konur kynnast betur og ná betur saman ef fjöldinn er ekki of mikill. Því var ráðist í stofna annan klúbb í bænum. Zontaklúbbur Akureyrar á sitt eigið félagsheimili að Aðalstræti 54 en ekki er vitað um aðra Zontaklúbba í heiminum sem eiga sitt eigið hús," segir Ragnheiður, sem sjálf hefur starfað í klúbbnum frá árinu 1975, þegar hún var 33 ára. Hún segir að í dag séu yngstu konurnar um fertugt.
Mikill undirbúningur
Ragnheiður segir að starf umdæmisstjóra sé mjög umfangsmikið. "Í umdæminu eru 43 klúbbar í þessum fjórum löndum og ég á ekkert að sinna íslensku klúbbunum betur en þeim erlendu. Ég næ nú ekki að heimsækja alla klúbbana en ég var í Danmörku um síðustu helgi, þar sem vígður var nýr Zontaklúbbur. Stærsta verkefnið mitt í umdæmisstjórastarfinu hefur verið að halda utan um þetta þing. Undirbúningurinn hefur verið mikill en við skipuðum fimm manna undirbúningsnefnd sem tók til starfa í ágúst í fyrra. Í nefndinni eru konur úr báðum Zontaklúbbunum í bænum en formaður hennar er Þóra Ákadóttir úr Zontaklúbbi Akureyrar. Það er heilmikil samvinna á milli Akureyrarklúbbana. Við stöndum t.d. sameiginlega að þessu þingi, við höldum einn sameiginlegan fund á ári og báðir klúbbarnir tillheyra er Zontasambandi Íslands."
Þema þingsins á Akureyri er "Kynferði og loftlagsbreytingar". Ragnheiður segir að Zontahreyfingin sé eina þjónustuhreyfingin í heiminum sem einbeiti sér að því að bæta stöðu kvenna. "Það er staðreynd að hlýnun jarðar og loftlagsbreytingar koma mun harðar niður á konum en körlum og þá er talið að 70% þeirra sem lifa undir fátæktarmörkum séu konur. Í vanþróuðu löndunum eru það konur sem sjá um akuryrkjuna og framleiða 60-80% af allri fæðu sem fólkið neytir. Þær þurfa jafnramt að sækja vatn, oft um langanveg, sækja eldivið og afla tekna. Þá farast miklu fleiri konur en karlar í þessum náttúruhamförum og þær virðast eiga mun erfiðara með að flýja undan t.d. stormum, flóðum og hvirfilbyljum, hverju sem það er um að kenna. Þær eru með börn og gamalmenni á sínum herðum og kannski er klæðnaður þeirra óhentugari við þessar aðstæður."
Ragnheiður segir að það jafnframt staðreynd að í kjölfar svona hamfara, sé ofbeldi gegn konum svo mikið. "Þetta ofbeldi gegn konum kemur líka fram í stríðum og það er eins og það sé einn liður í baráttunni að beita konur skipulega kynferðislegu ofbeldi. Það er því brýn ástæða til að fjalla um þessi mál og reyna þannig að bæta stöðu kvenna."
Unnið að mörgum verkefnum
Ragnheiður segir að Zontahreyfingin vinni að mörgum verkefnum í þróunarlöndunum í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar. Þar má nefna baráttu í samvinnu við UNICEF til að hindra HIV smit frá móður til barns í Rwanda. Það verkefni gengur svo vel að árið 2015 má búast við kynslóð þar, sem er laus við HIV veiruna. Unnið er að því að gera Guatamala City og San Salvador hættulausar borgir, í samvinnu við UN Women. Unnið að því að útrýma fæðingarskaða, sem kallast Fistula hjá konum og einnig að koma í veg fyrir dauða nýbura og kvenna við fæðingar í Liberíu í samvinnu við UNFPA. Zisvaw "Zonta International Strategies to end Violence agains Women" berst gegn ofbeldi á konum. Nú er unnið að tveimur verkefnum, annars vegar er barist gegn sýruskaða á konum í Cambodíu og hins vegar er barist fyrir öryggi kvenna á Haiti eftir jarðskjálftana þar, í samvinnu við UN Women.
Zonta veitir einnig námstyrki. Amelia Earhart styrkir eru veittir í minningu þessarar þekktu flugkonu. Þeir eru veittir stúlkum í nám í geimvísindum og verkfræði og öðrum raunvísindum. Jane M Klausman styrkir eru veittir stúlkum í viðskipta og hagfræðinámi. Young Women In Public Affairs er styrkur veittur stúlkum á aldrinum 16 til 20 ára sem hafa unnið mikið að félagsmálum og skarað fram úr á því sviði.
Klúbbarnir á Íslandi hafa á undaförnum árum barist gegn kynferðisofbeldi og alls konar ofbeldi gegn konum og hafa stutt Kvennathvarfið og Stígamót, Aflið á Akureyri og Sólstafi á Ísafirði. Sú fjárhæð sem safnaðist með sölu kynjagleraugnanna í tengslum við kvennafrídaginn hefur verið gefin til athvarfs fyrir konur sem vilja losna úr vændi. Zontaklúbbarnir áttu aðild að þeirri söfnun ásamt fjölda annara kvennasamtaka, að sögn Ragnheiðar.
Fyrirlesarar þingsins, sem fram fer í Hömrum í Hofi, eru þrjár ungar íslenskar vísindakonur sem fjalla um þessi mál frá ýmsum hliðum. Þær tala um mismunandi afleiðingar hlýnunar jarðar á karla og konur. Þær tala einnig um það hvað hinn almenni neytandi getur gert til þess að sporna við þessari óheillavænlegu þróun. Þær eru Auður Ingólfsdóttir, við Háskólann á Bifröst, Embla Eir Oddsdóttir við Stofnun Vilhjálms Stefánssonar og Brynhildur Pétursdóttir frá Neytendasamtökunum.
Frú Vigdís heiðursfélagi
Frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti er heiðursfélagi Zonta International, hún mun heiðra þingið með nærveru sinni og flytja ávarp við upphaf þess. Lynn McKenzie frá Wellington á Nýja Sjálandi, sem er verðandi alþjóðlegur forseti verður fulltrúi alþjóðastjórnarinnar og flytur ávarp. Ragnheiður segir að erlendu þátttakendur þingsins séu mjög spenntir fyrir því að hitta frú Vigdísi.
Þátttakendur munu koma sama í Háskólanum á Akureyri fimmtudagskvöldið 8. september en sjálft þinghaldið hefst daginn eftir, föstudaginn 9. september. Um kvöldið er þátttakendum dreift í heimahús hjá akureyrskum Zontakonum og boðið til kvöldverðar. "Það fara 8-10 konur í hvert heimahús og þetta hefur alltaf verið mjög vinsælt," segir Ragnheiður. Þinghaldinu verður framhaldið á laugardagsmorgninum en þinginu á að ljúka um kl. 13.00. Eftir hádegi ætla norsku konurnar að halda sinn landsfund á Akureyri og jafnframt verður haldinn formannafundur hjá íslensku konunum. Undir kvöld verður móttaka í Hofi á vegum Akureyrarbæjar og hátíðarkvöldverður í kjölfarið. Á sunnudeginum verður boðið upp á ferðir í Mývatnssveit, til Siglufjarðar og um Akureyri.
Zontahreyfingin var stofnuð í Ameríku árið 1919. Nú eru félagar um 32 þúsund í 67 löndum og koma félagar úr hinum ýmsu starfsgreinum. Nafnið Zonta er tekið úr táknmáli Sioux indíana og táknar, að sú sem er Zontasystir er traustsins verð. Heiminum er skipt í 32 umdæmi. Á Íslandi eru 7 klúbbar og mynda þeir Zontasamband Íslands. Í Reykjavík eru tveir klúbbar, tveir á Akureyri, einn á Ísafirði, einn í Hafnarfirði/Mosfellsbæ og verið er að stofna klúbb í Borgarfirði. Formaður/svæðisstjóri Zontasambands Íslands er Bryndís Bjarnarson í Zontaklúbbnum Sunnu í Hafnarfirði/Mosfellsbæ. Næsti svæðisstjóri verður Sigrún Magnúsdóttir úr Þórunni hyrnu á Akureyri. Zontaklúbbur Reykjavíkur, er elsti klúbbur landsins, stofnaður árið 1941 en Zontaklúbbur Akureyrar er næst elstur, stofnaður árið 1949.
Björguðu menningarverðmætum
Ragnheiður segir að elstu félagarnir í Zontaklúbbi Akureyrar hafi verið mikilir skörungar og að klúbburinn hafi bjargað miklum menningarverðmætum þegar hann eignaðist svokallað Pálshús. Húsið var þá að hruni komið en Zontasystur endurbyggðu það, söfnuðu munum og komu þar upp safninu; Nonnahús, til minningar um Jón Sveinsson en húsið var bersknuheimili hans frá 7-12 ára aldurs. Zontasystur ráku Nonnahús í 50 ár en afhentu það svo Akureyrarbæ að gjöf. "Nonnahús stendur á lóð Zontahússins og þegar það var til sölu, ákváðu konurnar að kaupa það, til þess að eiga lóðina undir Nonnahús. Þær söfnuðu fé og verðbólgan hjálpaði þeim eitthvað en þetta var engu að síður mikið afrek hjá fáum konum," segir Ragnheiður.