N1-deild karla í handbolta rúllar af stað á ný í kvöld með heilli umferð eftir stutt landsleikjahlé og sækir Akureyri Selfoss heim kl. 18:30. Akureyri er sem fyrr á toppnum með 27 stig og hefur sex stiga forystu á FH sem er í öðru sæti með 21 stig. Selfoss vermir hins vegar botninn með sex stig en liðið er í harðri botnbaráttu við Aftureldingu. Selfoss vann sinn annan leik á tímabilinu er liðið lagði HK að velli í síðustu umferð.
Þar á undan náði liðið jafntefli gegn Íslandsmeisturum Hauka og því eru Selfyssingar á uppleið en liðið má illa við að tapa fleiri stigum, ætli það að halda sér í deildinni. Það verður því við ramman reip að draga fyrir Akureyringa í kvöld sem freista þess að vinna sinn fjórtánda deildarleik í vetur.
„Við erum að fara í hörkuleik og erum að búa okkur undir það. Þetta eru tvö stig sem við ætlum að taka og við gerum það sem við þurfum til þess,” segir varnarmaðurinn Guðlaugur Arnarsson í liði Akureyrar.
Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfyssinga, segir sitt lið hafa engu að tapa í kvöld. „Þetta verður spennandi verkefni. Akureyri er langbesta lið landsins og það er gaman að keppa við þá bestu," segir hann.
Nánar er hitað upp fyrir leikinn í kvöld í Vikudegi í dag.