Tröllasteinn, stærsta heimavistarhúsið við Framhaldsskólann á Laugum Eigendur vilja selja og þá er skólahald í uppnámi

Tröllasteinn
Tröllasteinn

„Eðlilegast er að ríkið kaupi þetta húsnæði. Með því verður til varanleg lausn til framtíðar,“ segir Sigurbjörn Árni Arngrímsson skólameistari Framhaldsskólans á Laugum. Heimavist er rekin við skólann í þremur húsum, tvö þeirra eru í eigu ríkisins en eitt, Tröllasteinn í einkaeigu og rennur leigusamningur út nú um komandi mánaðamót. Að jafnaði stunda ríflega 100 nemendur nám við skólann á hverju ári.

Sigurbjörn Árni segir að unnið sé að gerð áframhaldandi leigusamnings við eigendur Tröllasteins og að hann verði til eins ár. Verði af undirritun slíks samning er skólahald á Laugum tryggt næsta vetur, en skólameistari segir brýna nauðsyn bera til að fundin verði varanlegri lausn en til eins árs.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson alþingismaður Miðflokksins lagði á dögunum fram tillögu til þingsályktunar til að tryggja áframhaldandi skólastarf á Laugum, en skólinn verður 100 ára á næsta ári, haustið 2025.

 Ekki pláss nema fyrir 40 nema ef Tröllasteins nýtur ekki við

 Heimavistirnar eru Fjall (Draugastein), Álfasteinn og Tröllasteinn. Það hús var byggt árið 1999 og er rúmlega 1200 fermetrar að stærð með 35 tveggja manna herbergjum með baði.

Þar er einnig matsalur, sem notaður er undir félagsaðstöðu nemenda og eldhús. Endurbætur hafa verið gerðar á hinum vistunum, en í Draugasteini eru 15 herbergi með rými fyrir 31 nemenda og Álfasteinn er með 7 herbergi og rými fyrir 14 nemendur.

Í þingsályktunartillögunni kemur fram að framhaldskóli verði ekki rekin á Laugum nema Tröllasteins njóti við, enda þá ekki rými fyrir fleiri nemendur en 40. Skólameistari bendir einnig á að það auðveldi gæslu á heimavist að reka ekki fleiri en þrjár vistir eins og tíðkast hefur undanfarin ár. 
Stærsti einstaki eigandi Tröllasteins er Guðmundur Jónasson, GJ Travel, en Þingeyjarsveit á tæpan fjórðung í byggingunni. Eigendur hússins vilja gjarna losa það fjármagn sem bundið hefur verið í byggingunni og án nokkurrar arðsemi eða arðgreiðslna frá aldamótum.
„Skólahald fyrir næsta vetur er tryggt verði skrifað undir leigusamning við eigendur Tröllasteins, en við þurfum að horfa til framtíðar ekki bara eins árs,“ segir Sigurbjörn.

 


Athugasemdir

Nýjast