Toppslagur á Þórsvelli í dag- Frítt á völlinn

Stórleikur áttundu umferðarinnar á Íslandsmótinu í 1. deild karla í knattspyrnu fer fram á Þórsvelli í dag þegar Þór og ÍR eigast við. ÍR situr á toppi deildarinnar með 16 stig en Þór hefur 14 stig í þriðja sæti og með sigri í dag ná norðanmenn toppsætinu. Slippurinn á Akureyri ætlar að bjóða bæjarbúum á leikinn og klukkutíma fyrir leik verður boðið upp á grill og andlitsmálningu á svæðinu við Þórsvöll. Þorsteinn Ingason, fyrirliði Þórs, segir sína menn vel stemmda fyrir leiknum í dag. 

„Þessi leikur leggst mjög vel í okkur, við erum búnir að vera á ágætis siglingu og með sigri í dag sendum við skýr skilaboð um hvar við ætlum að vera í deildinni,“ segir Þorsteinn. 

Trausti Björn Ríkharðsson, fyrirliði ÍR- inga, býst við hörkuleik á Þórsvelli í dag.  „Þetta er sterkt lið sem við erum að fara að mæta og mikil áskorun fyrir okkur,“ segir Trausti. 

Nánari upphitun um leikinn má sjá í nýjasta tölublaði Vikudags.

Nýjast