TOPP 5 LISTINN: BÆKUR ÞÓRBERGS ÞÓRÐARSONAR

Orri Harðarson rithöfundur og tónlistarmaður. Mynd: Auðunn Níelsson
Orri Harðarson rithöfundur og tónlistarmaður. Mynd: Auðunn Níelsson

Topp fimm listamaður vikunnar er Orri Harðarson, rithöfundur og tónlistarmaður frá Akranesi. Hann hefur búið á Akureyri um árabil ásamt eiginkonu sinni, Ingu Elísabetu Vésteinsdóttur. Saman eiga þau stúlkurnar Karólínu og Birgittu Ósk. Orri vinnur nú að nýrri skáldsögu sem út kemur á hausti komanda.

Orri skorar á Kristján Edelstein, tónlistarmann, að koma með topp fimm lista næstu viku. Kristján hefur frjálst val um efnið, enda annálaður músíkant, matgæðingur mikill og smekkmaður á kvikmyndir.

#5 – ÆVISAGA SÉRA ÁRNA ÞÓRARINSSONAR Ævisaga

Einhver best skrifaða og kostulegasta ævisaga sem ég hef nokkru sinni lesið. Þórbergur er þarna að færa frásagnir níræðs uppgjafaprests til bókar og skilar þeim ljóslifandi í sex bindum. Höfðu menn á orði að þarna hefðu komið saman hraðlygnasti Íslendingurinn (Árni) og sá trúgjarnasti (Þórbergur). Ofvitinn frá Hala lifði sig svo inn í hlutverk Árna að hann tók meira að segja upp göngulag viðmælandans.

#4 – SÁLMURINN UM BLÓMIÐ

Dásamleg reynslusaga um samskipti Þórbergs við barn í blokk á Hringbrautinni, þar sem höfundurinn bjó á efri árum. Aftur lagði Þórbergur sig svo fram um að skilja viðfangsefnið að hann æfði bæði og analyseraði babblið í ómálga barninu. Skreið og slefandi um gólf. Löngu síðar sagði hann enda í viðtali við Matthías Johannesen: Sálmurinn um..

„Ég yngdist upp þegar ég skrifaði Sálminn um blómið, því þá varð ég að leika barn í fimm ár. Ef ég hefði haldið áfram önnur fimm, þá hefði ég verið farinn að slefa og pissa á mig.“

#3 – OFVITINN

Vinsælasta bók Þórbergs. Og ekki að ósekju. Leiftrandi skemmtilegar frásagnir hans af fyrstu árunum á mölinni, eftir að hann flytur sem ungur og blásnauður maður úr Suðursveit til Reykjavíkur. Þarna eru margar ógleymanlegar pælingar og senur. Stúlkur leika stórt hlutverk í bókinni; Þórbergur missir sveindóminn í kirkjugarði, er með „elskuna sína“ á heilanum og svo framvegis. Honum er líka tíðrætt um fyrrnefnda fátækt, misheppnaða menntavegsgöngu og sitthvað fleira. Og þarna er auðvitað húslesturinn eftirminnilegi: Ofvitinn

„Allir Íslendingar kunna að lesa bækur. En hversu margir kunna að lesa hús? Það er meiri íþrótt að kunna að lesa hús en að geta lesið bækur. Húsið er hugsun, sem hefur hæð, lengd og breidd. Bókin er vöntun á hugsun, sem aðeins hefur lengd. Húsið er sannleikurinn um líf kynslóðanna. Bókin er lygin um líf þeirra. Ég var á tíunda ári þegar ég lærði að lesa hús.“

#2 – ÍSLENZKUR AÐALL

Þessi fyrirrennari Ofvitans markar upphaf nýrrar bókmenntagreinar sem Guðbergur Bergsson kallaði síðar „skáldævisögu.“ Aðallinn þykir mér heilsteyptasta bók Þórbergs. Hún inniheldur – rétt eins og Ofvitinn – kostulegar frásagnir af fyrstu manndómsárunum; heimspekilegar vangaveltur um skáldskap, ást, pólitík og trú. Svo er hún þarna hin óborganlega framhjáganga, auk dásamlegra lýsinga á Akureyri; dvöl hans þar og sagnir af eftirminnilegu samferðafólki. Þjáningin var og aldrei langt undan. Ízlenskur aðall

„Það var fallegt að þjást. Það var fínna að ganga með samanbitinn heimshryggðarsvip á andlitinu en að gapa af lífsgleði. Hryggð og bölsýni báru vitni um djúpt sálarlíf, miklar gáfur, umhyggju fyrir velferð mannanna. Og það var svipuð nautn í þjáningunni og að standa yfir moldum framliðins vinar síns, sem maður var sannfærður um að lifði ekki eftir dauðann, - skildi aðeins eftir nokkrar hugljúfar minningar í ljósastiku heimsins. Glaðlyndi var þar á móti heimskulegt. Það vitnaði um sljóar tilfinningar og grunnfært hugarfar. Það sýndi léttúð, skort á ábyrgðartilfinningu og þykkskinnungshátt í garð hinna fíngerðari eðlisþátta lífsins.“

#1 – BRÉF TIL LÁRU

Trúlega er Bréfið eitthvert besta byrjendaverk íslensks rithöfundar. Stílgáfa og slagkraftur einkennir þetta magnaða manifestó hins sannfærða kommúnista sem mjög er í mun að berja bæði á kirkjunni og kapítalistum. Meira að segja bærinn okkar verður þarna fyrir barðinu á innblásnum höfundinum: Bt´rf til Láru

„Mér fannst Akureyri leiðinlegur bær. Og fólkið var drumbslegt við mig. Það er svo ánægt með sjálft sig. Það er norðlenzkt.“

Bókin hafði gríðarleg áhrif og gerði til dæmis Halldór Laxness afhuga kaþólskunni. Umfram allt er hún þó vitnisburður um makalausa stílsnilld. Tónninn er strax sleginn í hinni löngu upphafssetningu bókarinnar. Og hvílík opnun:

„Gegnumsýrður af heilögum innblæstri sem blóðmörskeppur í blásteinslegi, titrandi af hamstola lyftingu, vaggandi af ómþýðum englaröddum, er til mín hljóma gegnum gengishrun og öreigaóp vorrar vesölu jarðar, tvíhendi ég pennastöngina þér til dýrðar, þér til eilífrar dýrðar og vegsömunar, andlegrar umturnunar, sáluhjálpar og syndakvittunar, hvar af þú ljómar og forklárast eins og sólbakaður saltfiskur frammi fyrir lambsins stól.“

Í Bréfinu er líka hin fræga frásögn af því þegar Þórbergur taldi sig vera óléttan, auk fleiri bráðfyndinna lýsinga á sérkennilegum manninum bak við höfundinn. Ég set bókina í fyrsta sæti vegna þess hversu mikil áhrif hún hafði á mig, fremur en að hún sé endilega besta verk höfundarins.

Nýjast