Tónlistarskólinn á Akureyri flytur í Hof í haust

Umsóknir um nám við Tónlistarskólann á Akureyri eru heldur fleiri nú í vor en þær voru í fyrra og segir Hjörleifur Örn Jónsson skólastjóri það mjög ánægjulegt. Starfsemi skólans flyst í Menningarhúsið Hof í haust og hlakka menn til að komast þar inn, enda aðstaða öll mun betri en skólinn hefur búið við á liðnum árum. Nemendur, starfsmenn, foreldrar og velunnarar skólans fóru í skrúðgöngu sl. miðvikudag frá núverandi húsnæði við Hvannavelli og að Hofi.  

Í framhaldinu voru svo skólaslit í Akureyrarkirkju. Innritun fyrir næsta námsár lauk nýverið og bárust heldur fleiri umsóknir nú en var fyrir ári en þær voru ríflega 500 talsins.  Um 450 nemendur stunda að jafnaði nám við Tónlistarskólann, en Hjörleifur Örn segir að ekki sé hægt að taka alla inn sem um sækja. Ráðist það af þeim tímum sem skólanum er úthlutað. Hann segir að þrátt fyrir bágt efnahagsástand á liðnum misserum hafi umsóknum fjölgað, greinilegt sé að fólk leggi meiri áherslu á börn sín og menntun þeirra eftir að þrengja fór að. Starfsemi skólans hefur verið mjög blómleg undanfarin misseri, tónleikar sem efnt hefur verið til á vegum hans hafa aldrei verið fleiri, mun fleiri hljómsveitir eru starfandi við skólann en verið hefur og þá hefur námsbrautum fjölgað.  Þá er skólinn í samstarfi við fjölda aðila út í bæ, Leikfélag Akureyrar, Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, Rósenborg, Dvalarheimilið Hlíð og grunnskóla bæjarins.  „Við eigum gott samstarf við ýmsa aðila og gerum mikið af því að vera sýnileg, erum að teygja okkur út í samfélagið og vonum svo auðvitað að samfélagið teygi sig inn til okkar þegar við flytjum okkur til og hefjum starfsemi í Hofi," segir Hjörleifur Örn.

Tónlistarskólinn flytur úr núverandi húsnæði við Hvannavelli í næsta mánuði, en verður svo settur í Hofi 30. ágúst nk. „Það breytir öllu fyrir okkur að flytja í Menningarhúsið, aðstaðan er eins og best verður á kosið þannig að það verða skemmtileg viðbrigði fyrir okkur að komast í viðunandi húsakynni eftir að hafa verið í bráðabirgðahúsnæði til fjölda ára," segir Hjörleifur Örn.  Eina sem skyggir á, að sögn skólastjóra, er að í kjölfar kreppunnar var hluti af tækja- og hljóðfærabúnaði sem ætlunin var að kaupa skorin niður.  „En vonandi rætist úr þeim málum líka," segir hann.

Nýjast