Tónleikaröð Jazzta á Götubarnum á Akureyri

Jazzáhugafólk á Akureyri og nágrenni getur nú tekið gleði sína á ný, því miðvikudaginn 16. febrúar nk. kl. 21.00, hefst röð heitra tónleika á Götubarnum við Hafnarstræti, sem bera nafnið Jazzta. Um er að ræða jazztónleika með nýju yfirbragði á vegum Tónlistarskólans á Akureyri og Jazzklúbbs Akureyrar.  

Fjölbreyttir tónleikar verða í boði á Jazzta en þar leika og syngja jazzarar úr hópi kennara og nemenda við Tónlistarskólann á Akureyri og kennir þar ýmissa grasa. Einnig mæta gestaleikarar og söngvarar eftir því sem við verður komið. Á fyrsta kvöldinu á miðvikudag, verður sveifla og blús í fókus en þá mun Margot Kiis syngja með Risto Laur Dúóinu en Risto leikur á píanó. Einnig verða söngnemendur við Tónlistarskólann á Akureyri ásamt Marstef hljómsveit í eldlínunni.

Miðvikudaginn 16. mars verða svo næstu jazztónleikar á Götubarnum og boðið upp á SambaDúó. Rodrico Lopes leikur á trommur og Guito Thomas leikur á gítar og syngur. Einnig mæta til leiks Blússveiflu Múnkarnir, nemdahljómsveit Stefáns Ingólfssonar. Miðvikudaginn 13. apríl leikur Matisand Jazz tríó en það skipa þeir; Matti Tapani Saarinen á gítar, Emiil Þorri Emilsson á trommur og Einar B. Björnsson sem leikur á básúnu. Jafnframt leikur Stórsveit Tónlistarskólans á Akureyri undir stjórn Alberto Porro Carmona.

Á þessum tónleikum ættu jazzáhugamenn að finna eitthvað við sitt hæfi og ef vel tekst, gæti orðið framhald á. Aðgangur er ókeypis.

Nýjast