Tóku við veglegri gjöf Framsýnar
Styrktarfélag HSN í þingeyjarsýslum tók í gær á móti veglegri gjöf frá Framsýn stéttarfélagi við hátíðlega athöfn í Miðhvammi á Húsavík.
Um var að ræða gjafabréf upp á 15 milljónir króna sem þegar hefur verið nýtt til tækjakaupa fyrir starfsstöðvar HSN á starfssvæði Framsýnar.
Um er að ræða m.a. hjartaómtæki af fullkomnustu gerð, göngubretti, svo kallaðan D-dimer sem fer á starfstöð á Raufarhöfn og Kópasker, Eyrnaskoðunartæki í Mývatnssveit
Aðalsteinn Árni Baldursson, formaður Framsýnar afhenti gjafabréfið og flutti ávarp við tilefnið. Þar sagði hann m.a. að félagið gerði betur við félagsmenn en almennt þekkist meðal sambærilega stéttarfélaga innan ASÍ, hvað þjónustu og styrki varðar. Þá sé félaginu ekki síst umhugað um nærsamfélagið.
„Það staðfestir gjöfin sem við ætlum að afhenda hér í dag til Styrktarfélags HSN í Þingeyjarsýslum sem er sú lang veglegasta sem við höfum gefið fram að þessu. Þá má nefna málinu til stuðnings, hvað varðar starfsemi félagsins, að í vikunni munu forsvarsmenn Framsýnar eiga fund með innviðaráðherra varðandi stuðning stjórnvalda við áframhaldandi áætlunarflug til Húsavíkur. Sá róður er vissulega þungur en við munum halda áfram að berjast fyrir betri samgöngum við Reykjavík á landi og í lofti,“ sagði Aðalsteinn og rakti svo sína eigin reynslu af því að þurfa að fara til Reykjavíkur til sérfræðings og kostnaðinn sem fylgir því
„Við megum aldrei missa sjónar að því að gera allt sem við getum til að efla okkar samfélag á öllum sviðum og benda á það sem betur má fara. Við sem þekkjum heilbrigðiskerfið, reyndar höfum við öll þurft á því að halda, vitum að það skiptir gríðarlega miklu máli takist okkur að bætta grunnþjónustuna í heimabyggð. Það eykur okkar öryggi, sparar peninga, dregur úr vinnutapi svo ekki sé talað um ferðakostnað sem er orðin óheyrilegur fyrir okkur á landsbyggðinni,“ sagði hann og bætti við að hann efaðist ekki um að framlag Framsýnar til kaupa á tækjum og búnaði fyrir HSN/HVamm fyrir 15 milljónir ættu eftir að daga úr þessum óheyrilega kostnaði heimafólks og bæta um leið búsetu- og lífsskilyrði fólks í Þingeyjarsýslum.
„Við höfum lagt á það sérstaka áherslu að búnaðinum verði komið fyrir á starfsstöðum HSN á Húsavík, Raufarhöfn, Kópaskeri, Mývatnssveit og í selinu í Reykjadal sem er okkar félagssvæði,“ sagði Aðalsteinn.