Tíminn líður, trúðu mér!
Já það eru komin 20 ár síðan Sundfélagið Óðinn, ( stofnað af unglingum upp úr sunddeildum KA og Þórs) tók þátt í tilraunaverkefni með Fjölskyldudeild Akureyrarbæjar um að bjóða börnum með skilgreinda fötlun upp á sundæfingar.
Verkefnið var 10 tíma tilraun þar sem fjölskyldudeild sendi boð til foreldra barna á aldrinum 10-16 ára um að prufa. Við Jóhanna Jessen íþróttakennari tókum að okkur að kenna þetta námskeið. Að því loknu var það metið af iðkendum og fjölskyldum þeirra auk þess sem við skiluðum inn mati.
Niðurstaðan var einróma ánægja og áhugi á fleiri æfingum.
Það var því veturinn 2004-2005 sem við hjá Sundfélaginu byrjuðum að bjóða upp á sundæfingar 2x í viku í svokölluðum Stjörnuhóp, sem var hópur ætlaður börnum með skilgreinda fötlun. Fyrir þann tíma höfðu börn með fötlun æft sund hjá Óðni þó ekki væri í sér hóp og má þar nefna Sigurrós Karlsdóttur, Rut Sverrisdóttur og Önnu Rún Kristjánsdóttur sem allar gerðu það gott á heimsvísu.
Þegar sundskóli Óðins var stofnaður og hóparnir fengu nöfn sjávardýra, þá fékk Stjörnuhópur nafnið Krossfiskar og jafnframt var hópnum skipt upp þannig að unglingarnir fluttust úr Glerárlaug upp í Akureyrarlaug og Vilhjálmur Ísleifsson einn iðkenda stakk uppá að þau myndu heita Krókódílar, sem sá hópur hefur heitið síðan. Eftir stendur að í Óðni eru tveir hópar fyrir börn og ungt fólk með skilgreinda fötlun.
Þó hefur það alltaf verið svo að þau eins og önnur börn í félaginu eru flutt milli hópa eins og best hentar þeim. Það er oftast þannig að þau byrja með sínum jafnöldrum í almennum hóp og nái þau að fylgja og líður vel þá eru þau með þeim. Þurfi þau hins vegar meiri aðstoð en veitt er í almennum hóp, býðst þeim í samráði við foreldra að fara í Krossfiska. Sum þeirra fara síðan aftur í almenna hópa en önnur ekki. Krossfiskahópinn notum við líka til að taka á móti börnum á grunnskólaaldri sem eru vatnshrædd/óörugg á meðan þau eru að komast yfir það og svo fara þau í sína aldurshópa. Almennt litum við svo á að Krókódílar séu keppnishópur en það er að sjálfsögðu val hvers og eins að keppa. Þessi leið okkar að mæta einstaklingunum þar sem þau eru og veita þeim þjálfun við hæfi hefur verið kölluð Akureyrarmódelið af Íþróttasambandi Fatlaðra.
Frá upphafi hefur alltaf verið markmiðið að þjálfa börnin með það í huga að þau muni stunda keppni í sundi. Kreppa og covid hafa hins vegar gert okkur erfitt fyrir, en mest er það aðstöðuleysið! Fólk með fötlun syndir ekki allt eins hratt og þau sem ekki glíma við fötlun. Þau halda ekki eins vel á sér hita og spasminn getur verið erfiður við að eiga í kuldanum. Það er líka erfitt að leiðbeina þegar ekki er hægt að taka fólk upp úr lauginni til að tala við/vinna á bakkanum í útilaug. Það að hafa yfirbyggða keppnislaug er ekki bara nauðsyn fyrir þessa iðkendur, það er nauðsynlegt fyrir öll hin líka. Við í Sundfélaginu Óðni höfum haft það að markmiði að yfirvinna erfiðleika en við erum satt að segja orðin mjög leið á því að ekkert gerist hjá bænum til að koma á yfirbyggðri æfinga- og keppnislaug!
Það var á árdögum Óðins að fyrsta beiðni um bætta yfirbyggða aðstöðu fór til ÍBA (1965). Nú orðið býst ég frekar við dauða mínum enda bara ári yngri en félagið. Ég hætti hins vegar ekki að vona og ég veit að allt Óðinsfólk vonast til að brátt verði erfiðleikarnir að baki og það styttist í að við förum aftur að eiga sundfólk með og án fötlunar í fremstu röð eins og áður fyrr. En til þess þarf aðstaðan sem okkur er búin að batna verulega.
Og hver er svo ástæðan fyrir þessum pistli? Jú fyrir utan 20 ára afmælið þá er það gleði okkar sem erum í forsvari fyrir Óðinn að nú hafa KA og Þór byrjað með æfingar fyrir börn með skilgreinda fötlun.
Það er trú okkar að öll börn og unglingar eigi rétt á að stunda íþróttir við hæfi.
Góður félagsskapur er gulli betri!
Virðingarfyllst,
Dilla.