Fjögur tilboð bárust í endurútboði vegna byggingar 4. áfanga við Háskólann á Akureyri og voru þau öll vel yfir kostnaðaráætlun. Áður hafði báðum tilboðum í fyrra útboði verið hafnað en þau voru einnig vel yfir kostnaðaráætlun. Tilboðin í endurútboðinu voru opnuð í morgun og átti fyrirtækið Silfursteinn lægsta tilboð, eða rúmar 648 milljónir króna, sem er um 116% af kostnaðaráætlun, sem hljóðaði upp á tæpar 555 milljónir króna.
Tréverk ehf. átti næst lægsta tilboð í verkið en það var upp á tæpar 690 milljónir króna, eða um 124% af kostnaðaráætlun, Fjölnir ehf. bauð um 730 milljónir króna, að um 131% af kostnaðaráætlun og Ístak hf. bauð tæpar 734 milljónir króna, eða um 132% af kostnaðaráætlun. Fjölnir og Ístak áttu tilboðin tvö í fyrra útboðinu og þá bauð Fjölnir um 743 milljónir króna, sem var um 40% yfir kostnaðaráætlun og Ístak bauð tæpar 759 milljónir króna eða um 43% yfir kostnaðaráætlun.