Ég hefði viljað að sjónarmiðum landsbyggðarfólks hefði verið gert hærra undir höfði á málþinginu. Einungis var einn fulltrúi af landsbyggðinni ,Birna Lárusdóttir fyrrverandi bæjarfulltrúi á Ísafirði í átta manna pallborði. Einnig fannst mér umræðan um sjúkraflugið vera í skötulíki og byggjast á mikilli vanþekkingu eins og þegar því sjónarmiði er haldið fram að hægt sé að sinna öllu sjúkraflugi á Íslandi með þyrlum, segir Njáll Trausti Friðbertsson flugumferðarstjóri og varabæjarfulltrúi um málþing um framtíð Reykjavíkurflugvallar sem haldið var á dögunum.
Hann segir málþingið hafa verið vel sótt og þar flutt mörg fróðleg erindi, en fyrirfram hefði hann búist við að meiri áhersla hefði verið á innanlandsflugið. Umræðan snérist nánast öll, að sögn Njáls Trausta, um Reykjavíkurflugvöll og málefni tengd honum. Fyrirlesarar og þátttakendur í pallborði hefðu töluvert vitnað í skýrslu sem unnin var af samráðsnefnd samgönguráðuneytisins og Reykjavíkurborgar og gefin út í apríl 2007. Í þeirri skýrslu kemur m.a. fram að stærsti einstaki þátturinn, þegar meta á þjóðhagslegan ábata af því að leggja flugvöllinn í Vatnsmýri niður, er verðmat á byggingarlandi í Vatnsmýrinni. Skýrslan var unnin á árunum 2005 til 2007 þegar eignabólan sem myndaðist hér á síðasta áratug stóð sem hæst. Fulltrúi frá Betri byggð hafi t.d. talað um að verðmæti lóða í Vatnsmýri væri 70 milljarðar.
Þannig er umræðan að mínu mati á ákaflega sérstöku plani því verðmæti lóða er ekki það sama nú og það var þá. Nauðsynlegt er að endurskoða þessar skýrslur ef notast á við þær í einhverri ákvörðunartöku í dag, segir Njáll Trausti. Hann segir svar Dags B. Eggertssonar formanns borgarráðs við fyrirspurn úr sal, þess efnis hvort ekki væri nauðsynlegt að flugvöllurinn og nýtt sjúkrahús væru í sem mestri nálægð hvort við annað, hafa komið sér og fleiri fundarmönnum á óvart. Efnislega hafi Dagur sagt að allir vissu að það sem skipti mestu máli væri að fyrsta hjálp kæmi sem fyrst á vettvang slysa eða þar sem bráð veikindi kæmu upp. Ferðatími skipti síðan minna máli, það er að koma sjúklingi á sjúkrahús.
Þetta svar vakti töluverða undrun á meðal fundarmanna. Dagur gerði sem sagt lítið úr því að flugvöllur og nýtt sjúkrahús þyrftu að vera nálægt hvort öðru. Þeir sem til þekkja og koma að þessum málum vita betur og mótmæltu þessum málflutningi kröftuglega á fundinum. Í þessu samhengi er rétt að geta þess að Dagur er formaður samgönguráðs sem er ráðgefandi aðili gagnvart samgönguáætlun. Í gerð samgönguáætlunar hefur forsendum okkar samgöngukerfis verið breytt með þeim hætti að íbúar landsins eigi að geta komist í næsta þjónustukjarna innan klukkstundar. Áður var miðað við að allir íbúar landsins gætu komist til Reykjavíkur á innan við þremur klukkustundum. Forsendan fyrir því að ná þeim ferðatíma er Reykjavíkurflugvöllur, segir Njáll Trausti.