Þrettándagleði Þórs slegin af

Þrettándagleði Þórs hefur verið slegin af þetta árið og því verða bæjarbúar að gera sér að góðu að kveðja jólin með öðru hætti nk. fimmtudag. Ekki tókst að fá aðila til að standa straum af kostnaði við framkvæmd þrettándagleðinnar, sem haldin hefur verið með örfáum undantekningum frá árinu 1934.  

Sigfús Ólafur Helgason formaður Þórs segir að félagið hafi þurft að greiða með þrettándagleðinni tvö síðustu ár en það sé ekki hægt lengur. "Þetta hefur verið ein af stærri tekjulindum félagsins í gegnum tíðina en við tókum upp á því að hætta að selja inn og bjóða bæjarbúum á þessa skemmtun fyrir þremur árum og leita þess í stað eftir stuðningi fyrirtækja í bænum við framkvæmdina. Kannski er þrettándagleðin orðin barns síns tíma, það gengur alla vega erfiðlega að fá stuðning við framkvæmdina," sagði Sigfús. 

Í Hörgársveit ætla menn hins vegar að gera sér glaðan dag en þó ekki fyrr en á föstudag en þá verður nýársbrenna Umf. Smárans í malarkrúsunum norðan við Laugaland á Þelamörk kl. 20.30. Þar verður hefðbundin dagskrá með dans og gleði og er fólk hvatt til að muna eftir flugeldum og blysum. Kaffisala nemenda Þelamerkurskóla verður í skólanum eftir brennuna og einnig verður spilað bingó.

Nýjast