11.desember - 18.desember - Tbl 50
Þjónustusamningur um rekstur almenningsbókasafns
Í dag var undirritaður þjónustusamningur Akureyrarbæjar og Svalbarðsstrandarhrepps um að íbúum hreppsins verði veitt fullt aðgengi að safnakosti og þjónustu Amtsbókasafnsins á Akureyri.
Íbúar með lögheimili í Svalbarðsstrandarhreppi greiða samkvæmt gjaldskrá safnsins fyrir þjónustu líkt og þeir væru með lögheimili í Akureyrarbæ.
Amtsbókasafnið veitir þar með íbúum Svalbarðsstrandarhrepps sömu þjónustu og íbúum Akureyrarbæjar, aðgang að safnkosti sínum og annarri þjónustu sem safnið hefur upp á að bjóða hverju sinni.
Skv. 6. gr. bókasafnslaga eru bókasöfn þjónustustofnanir sem starfa í þágu almennings og eigenda sinna og eru ekki rekin í hagnaðarskyni. Sameiginlegt markmið bókasafna er að veita aðgang að fjölbreyttu safnefni og upplýsingum á mismunandi formi. Þau skulu efla menningar- og vísindastarfsemi, menntun, símenntun, atvinnulíf, íslenska tungu, ánægjulestur og upplýsingalæsi. Hlutverk bókasafna er að jafna aðgengi að menningu og þekkingu. Áhersla skal lögð á að safnkostur bókasafna endurspegli sem flest sjónarmið.
Frá þessu segir á akureyri.is