Þetta þarf ekki að vera svona flókið

Bjarkey Gunnarssdóttir.
Bjarkey Gunnarssdóttir.

Fjölgun opinberra starfa í hinum dreifðu byggðum er eitthvað sem hefur gengið hægt að koma á. Það er eiginlega dapurlegt frá því að segja að í áratugi hefur þetta hreint ekkert gengið sem heitið getur. Á vef Byggðastofnunar frá því í desember síðastliðnum má finna kort þar sem sjá má 83 staði út um allt land og yfir 100 starfsstöðvar sem geta tekið á móti fólki til þess að vinna störf án staðsetningar.

Markmiðið er að 10% allra auglýstra starfa í ráðuneytum og stofnunum eigi að vera án staðsetningar árið 2024 þannig að búseta hafi ekki áhrif á val á starfsfólki. Þetta gengur allt of hægt. Sannarlega hafa verið unnin skref og ekki skal gera lítið úr þeim. En það er hægt að gera miklu betur og það þarf að breyta viðhorfi innan stofnananna líka, ekki bara inni í ráðuneytunum.

En ég veit ekki hvaða aðferð þarf að beita til þess að þetta verði raunverulegt því það er ljóst að það sem hefur verið gert fram til þessa er augljóslega ekki að skila sér og það er óásættanlegt. Við höfum, svo sannarlega, uppgötvað það flest öll í tengslum við Covid- faraldurinn að það er auðvelt að vinna svo ótal mörg störf hvar sem er á landinu.

Að þessu sögðu ætla ég samt að nefna eitt glænýtt dæmi, um störf án staðsetningar, afskaplega ánægjulegt að mínu mati. Þar er um að ræða tvö störf hjá Persónuvernd sem unnin erum í samstarfi við sýslumanninn á Norðurlandi eystra á starfsstöðinni á Húsavík, lögfræðing og sérfræðing í þjónustuveri. Þetta er dæmi um mál sem kom fyrir fjárlaganefnd og við afgreiddum fyrir jólin. Þetta er hægt að gera svo miklu víðar enda kemur fram í skýrslunni sem ég vitnaði til hér að ofan að það er hægt að auglýsa um 890 störf án staðsetningar þ.e. 13% stöðugilda ríkisins. Þetta þarf ekki að vera svona flókið en það þarf hugarfarsbreytingu.

-Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, þingflokksformaður VG og sækist eftir 1. sæti á lista VG í Norðausturkjördæmi


Athugasemdir

Nýjast